Innlent

Fresta kynningarfundi vegna veðurs

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að miðað við þær tillögur sem nú er unnið útfrá gæti miðhálendisþjóðgarður orðið sá stærsti eða næststærsti í Evrópu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að miðað við þær tillögur sem nú er unnið útfrá gæti miðhálendisþjóðgarður orðið sá stærsti eða næststærsti í Evrópu. Vísir/vilhelm

Fyrirhuguðum kynningarfundi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um Hálendisþjóðgarð hefur verið frestað vegna veðurs. Fundurinn átti að fara fram í Veröld-húsi Vigdísar í Reykjavík í dag en ný tímasetning fyrir fundinn verður auglýst á næstu dögum að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Um er að ræða einn nokkurra funda sem fyrirhugaðir eru víða um landið þar sem kynna á áform um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dagsetningum er breytt en í síðustu viku voru kynntar nýjar dagsetningar undir fundina þar sem veður hafði áður sett strik í reikninginn. Nokkuð skiptar skoðanir hafa verið uppi um málið en formaður umhverfis- og samgöngunefndar lýsti því til að mynda í gær að hann teldi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu ótímabæra.

Drög að frumvarpi eru nú í samráðsgátt er lítur að stofnun þjóðgarðsins en á þessum kynningarfundum hyggst ráðherra meðal annars fara yfir forsendur og markmið með stofnun þjóðgarðsins og kynna aðalatriði frumvarpsins.

Þá var í dag jafnframt framlengdur umsagnafrestur um drög að frumvarpi til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða en með því er gert ráð fyrir að í stað tveggja ríkisstofnana, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, verði sett á fót ein ný stofnun sem fari með málefni þjóðgarða. Þá er gert ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar á sviði náttúruverndar verði færð til stofnunarinnar, auk þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem nú heyrir undir Umhverfisstofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×