Innlent

Sjá ekki fram á að opna vegi fyrir umferð fyrr en á morgun

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu.
Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu. Vísir/SAMMI

Enn geisar norðaustan stormur á Vestfjörðum með skafrenningi og éljagangi. Skyggni er víðast hvar slæmt og ekki hefur náðst að opna marga fjallvegi í umdæminu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og hættustig á Ísafirði.

Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu. Lögreglan á Vestfjörðum býst ekki við að opna vegina fyrir umferð fyrr en á morgun. Raunar er víðast hvar lokað eða ófært á norðanverðum Vestfjörðum.

Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands réði starfsmönnum Terra á Ísafirði og Hampiðjunnar frá því að vera í húsnæði fyrirtækjanna. Eins hefur þótt öruggara að hafa sorpmótttökuna í Funa í Skutulsfirði lokaða.

Þá var íbúum á einum sveitabæ í Bolungarvík ráðlagt að dvelja á öruggari stað meðan ástandið varir.

Frá því á föstudag hefur meira og minna verið lokað fyrir umferð um Flateyrarveg. Fjöldi íbúa á Flateyri, þar sem fannfergi er þegar gríðarlegt, er fastur heima hjá sér og nú er svo komið að borið hefur á vöruskorti.

Katrín María Gísladóttir, kennari á Flateyri sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að íbúar á Flateyri hafi fyrir helgi búið sig vel undir óveðrið og að flestir hafi ráðist í stórinnkaup á föstudag.

Ófærð og lokanir hafi þó varið mun lengur en íbúar hafi almennt reiknað með. Björgunarsveitin hefur komið fólki á milli staða og nauðsynjavörum til fólksins. Katrín segir samheldni þorpsbúa lykilatriði á tímum sem þessum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.