Erlent

Elsta efni á jörðinni milljörðum árum eldra en jörðin

Kjartan Kjartansson skrifar
Rykagnirnar ævafornu var að finna í loftsteini sem féll til jarðar árið 1969. Myndin er úr safni.
Rykagnirnar ævafornu var að finna í loftsteini sem féll til jarðar árið 1969. Myndin er úr safni. Vísir/Getty

Rykagnir sem vísindamenn fundu í lofsteini sem féll til jarðar á 7. áratug síðustu aldar er elsta efni sem fundist hefur á jörðinni. Elstu agnirnar urðu til í sólstjörnum milljörðum ára áður en sólkerfið okkar og jörðin urðu til.

Áætlað er að rykið gæti verið allt að 7,5 milljarða ára gamalt en til samanburðar myndaðist jörðin fyrir um 4,5 milljörðum ára. Það fannst í Murchison-lofsteininum sem féll á Ástralíu árið 1969. Elsta þekkta efni sem fundist hafði á jörðinni fram að þessu var talið um 5,5 milljarða ára gamalt.

Vísindamennirnir mátu aldur agnanna með því að mæla fyrir hversu miklu magni geimgeislunar þeir höfðu orðið fyrir. Geimgeislar eru háhraðaeindir sem ferðast um geiminn og smjúga í gegnum fast efni. Stundum gagnvirka þeir við efni og mynda ný frumefni. Hlutfall samsætu frumefnisins neons var notað til að áætla aldurinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Flestar agnirnar voru á aldur við sólkerfið eða nokkuð eldra, á bilinu 4,6 til 4,9 milljarða ára gamalt. Um 10% agnanna voru eldri en 5,5 milljarða ára gömul.

Philipp Heck, aðalhöfundur greinar um rannsóknina og safnstjóri hjá Field-safninu í Chicago, segist sannfærður um að enn eldri agnir sé að finna í loftsteinum sem hafa lent á jörðinni. Þær eigi aðeins eftir að finnast.

Uppruna elstu agnanna má rekja til sólstjarna sem brunnu og sprungu áður en sólkerfið okkar myndaðist. Slíkar leifar mynda nýjar stjörnur, reikistjörnur og annað efni í alheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×