Erlent

Allt útlit fyrir að réttarhöldin yfir Trump hefjist eftir viku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nancy Pelosi og Donald Trump.
Nancy Pelosi og Donald Trump. Vísir/AP

Allt útlit er fyrir að formleg réttarhöld yfir Donald Trump, forseta Bandaríkjana, þar sem ákærur á hendur honum til embættismiss verða teknar fyrir í öldungadeildinni, hefjist eftir viku. Búist er við að fulltrúadeildin sendi ákærurnar formlega til meðferðar öldungadeilarinnar á morgun.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hefur neitað að halda atkvæðagreiðslu um hverjir flytja málið fyrir hönd demókrata í öldungadeildinni í nokkrar vikur með því markmiði að fá Mitch McConnell, forseta öldungadeildarinnar, til að tilkynna að Repúblikanar muni leyfa vitni í réttarhöldunum. McConnell hefur hins vegar ekki viljað skuldbinda sig til þess. Sú atkvæðagreiðsla mun hins vegar fara fram á morgun.

Í dag var greint frá því að öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins ætla ekki að fella ákærurnar gegn Donald Trump, forseta, niður án réttarhalda. Mitch McConnell tilkynnti í dag, eftir að Pelosi hafði tilkynnt að fulltrúadeildin myndi greiða atkvæði á morgun, að þriðjudagurinn 21. janúar, eftir slétta viku, væri líklegasta dagsetningin til þess að hefja réttarhöldin.

Eftir að ákærurnar eru formlega komnar til öldungadeildarinnar mun hún nýta næstu daga til að undirbúa réttarhöldin, að sögn McConnell. Þau fara þannig fram að forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna er einskonar dómari, nokkrir þingmenn úr hópi fulltrúadeildarþingmanna munu sækja málið en öldungadeildarþingmennirnir 100 mynda kviðdóm og er það þeirra að taka ákvörðun um að sakfella eða sýkna forsetann. Tveir þriðju hluti öldungadeildarþingmanna þarf að greiða atkvæði með sakfellingu til þess að Donald Trump verði fjarlægður úr embætti.

Talið er afar ólíklegt að það verði niðurstaðan enda Repúblikanar í meirihluta í öldungadeildinni.

Trump er gert að hafa beitt utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu með því markmiði að þvinga Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu til að tilkynna upphaf tveggja rannsókna sem myndu nýtast Trump í kosningunum á næsta ári. Sú viðleitni hafi staðið yfir um mánaða skeið og hafi verið stýrt af Rudy Giuliani, einkalögmanni Trump.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.