Erlent

Aska frá áströlsku kjarreldunum þekur nýsjálenska jökla

Kjartan Kjartansson skrifar
Reyk frá gróðureldunum í Ástralíu lagði meira en tvö þúsund kílómetra yfir Tasmaníuhaf og yfir Nýja-Sjáland.
Reyk frá gróðureldunum í Ástralíu lagði meira en tvö þúsund kílómetra yfir Tasmaníuhaf og yfir Nýja-Sjáland. Vísir/EPA

Jöklar og snjór á Nýja-Sjálandi er orðinn brúnn á lit vegna ösku sem kemur frá gróðureldunum sem hafa geisað í Ástralíu svo vikum skiptir. Talið er að öskulagið gæti aukið sumarbráðnun jökla þar um allt að tæpan þriðjung.

Reyk frá eldunum í Viktoríu og Nýja Suður-Wales lagði austur á gamlárskvöld og olli mistrið rauðri sólarupprás á Suðureyju Nýja-Sjálands að morgni nýársdags, að sögn The Guardian. Í dag voru svo jöklar og snjór í fjöllum orðinn brúnn á lit vegna ryksins.

Andrew Mackintosh, forstöðumaður jarð-, loftslags- og umhverfissrannsókna við Monash-háskóla, segist ekki hafa séð annað eins magn ryks berast yfir Tasmaníuhaf á þeim tuttugu árum sem hann hefur rannsakað nýsjálenska jökla. Gróft áætlað telur hann að rykið gæti aukið bráðnun jöklanna á suðurhvelssumrinu sem nú stendur yfir um 20-30% þar sem dökkt rykið drekkur í sig sólarorku sem hvítt yfirborð þeirra hefði alla jafna endurvarpað.

Nýsjálenskir jöklar hafa skroppið saman um tæpan þriðjung frá 8. áratug síðustu aldar. Vísindamenn spá því að þeir hverfi algerlega fyrir lok aldarinnar vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Nýja Suður-Wales vegna skógar- og kjarreldanna í ljósi slæmrar veðurspár fyrir helgina. Búist er við stífum vindi og hita sem eykur enn hættuna á eldum. Átján manns hafa látið lífið frá því að eldarnir kviknuðu fyrst í Ástralíu í september og um 1.200 heimili hafa orðið þeim að bráð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×