Innlent

Nýju bakaríi á Selfossi líkt við að mæta á tónleika með Eagles

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Nýtt bakarí í eigu tveggja bakara hefur opnað í húsinu sem Guðna bakarí á Selfossi var rekið í tæp fimmtíu ár . Ungu bakararnir lærðu á sínum tíma hjá Guðna. Snúðar verða eitt af aðalmerkjum bakarísins.

Það eru þeir Guðmundur Helgi Harðarson frá Haga í Grímsnesi og Kjartan Ásbjörnsson frá Selfossi, sem eiga og reka bakaríið, sem heitir G.K. bakarí og opnaði í gær,  2.janúar.

Selfyssingar og nærsveitamenn hafa saknað gamla bakarísins síðustu misseri en Guðmundur og Kjartan, sem lærðu báðir að baka í Guðnabakarí hafa nú látið drauminn rætast og opnað nýtt bakarí í húsi síns gamla læriföðurs.

„Við ætlum bara að gera sem okkur þykir gott og okkur þykir skemmtilegt enda verður þetta blanda af því sem við lærðum hér og blanda af því af þeirri vitneskju, sem við höfum sankað að okkur í gegnum árin á þeim stöðum sem við höfum verið“, segir Guðmundur og bætir við;

„Þetta verður eins og að koma á tónleika með Eagles, þú vilt alltaf heyra það klassíska, þau veist að Hotel California kemur í endann og svo kemur alltaf eitthvað á undan, stundum skemmtilegt og gott og annað er leiðinlegt, en það er alltaf eitthvað sem þú getur gengið að sé topp“.

 

Snúðar verða eitt af aðalsmerkjum nýja bakarísins.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Kjartan og Guðmundur munu leggja mikla áherslu á gæði snúðanna því þeir segja að ef snúðurinn er ekki góður þá er bakaríið ekki gott.

„Við verðum bara með besta bakaríið, það er ekkert flókið, við ætlum bara að bjóða upp á góðar vörur og reyna að halda verði í lágmarki, halda öllum ánægðum líka“, segir Kjartan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×