Innlent

Þrettándabrennum víða um landið aflýst vegna veðurs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tvísýnt hefur verið um Þrettándabrennur víða um land vegna veðurs.
Tvísýnt hefur verið um Þrettándabrennur víða um land vegna veðurs. vísir/vilhelm

Fresta hefur þurft einhverjum Þrettándabrennum sem halda átti í dag en mikil lægð gengur nú yfir landið. Þrettándabrennum hefur verið frestað á Siglufirði, Djúpavogi og Eskifirði. Þrettándagleðin á Egilsstöðum verður færð inn í íþróttahúsið.

Þrettándagleði verður haldin á Akranesi við þyrlupallinn á Jaðarsbökkum og var gengið þangað frá Þorpinu kl. 17. Þá verður farið í íþróttahúsið eftir brennu þar sem tilkynnt verður um val á íþróttamanni ársins. Á Selfossi verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20 að tjaldstæði Gesthúsa þar sem brennan fer fram. Þar verður einnig flugeldasýning og eru bæjarbúar hvattir til að mæt í trölla-, álfa- eða jólasveinabúningum.

Þá verður þrettándabrenna í Ólafsvík með hefðbundnu sniði þar sem gengið verður frá Pakkhúsinu kl. 18 að brennustað rétt innan við félagsheimilið á Klifi. Þar verður einnig flugeldasýning. Á Húsavík byrjaði brenna kl. 17 við Sandvík og verður grímuball í Skúlagarði eftir Brennuna.

Í Reykjavík verður Þrettándagleði haldin á tveimur stöðum en kveikt verður á brennu við Ægisíðu og í Gufunesbæ í Grafarvogi. Í Grafarvogi hófst gleðin með kakó- og vöfflusölu í Hlöðunni kl. 17 og rétt fyrir kl. 18 hefst blysför og verður kveikt í bálkestinum rétt eftir kl. 18. Gengið verður með kyndla frá Melaskóla kl. 18 að Ægisíðu og verður eldur borinn að kestinum og flugeldum skotið upp.

Víðs vegar var haldið upp á Þrettándann snemma í ár, þar á meðal á Höfn í Hornafirði, Borgarnesi, Akureyri og Ísafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×