Innlent

Eldur í húsi crossfit-stöðvar á Fiskislóð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Útkallið barst um klukkan eitt í nótt.
Útkallið barst um klukkan eitt í nótt. Vísir/vilhelm

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út um eittleytið í nótt vegna elds í húsi crossfit-stöðvarinnar Granda 101 á Fiskislóð í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Eldurinn kom upp í litlum ruslagámi fyrir utan húsið og barst svo í klæðningu og alla leið upp í þak.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en að því búnu þurfti að rífa upp klæðningar og slökkva í glæðum. Slökkvistarf tók því tæpa tvo klukkutíma. Talið er að crossfit-stöðin sjálf hafi sloppið ágætlega en töluvert tjón er þó á húsinu.

Varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu vill ekki fullyrða um eldsupptök en segir í samtali við Vísi að yfirleitt kvikni ekki í ruslagámum af sjálfu sér. Í frétt RÚV, sem greindi fyrst frá málinu, segir að kveikt hafi verið í ruslinu. Lögregla er nú með vettvang brunans á sinni könnu.

Þá fór slökkviliðið í fjögur dælubílaútköll til viðbótar í nótt, að sögn varðstjóra. Þar voru aðallega á ferðinni gámar sem búið var að kveikja í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×