Erlent

Flýja húsin sín í Púertó Ríkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjálftinn mældist 6,4 stig og honum hafa fylgt fjölmargir eftirskjálftar.
Skjálftinn mældist 6,4 stig og honum hafa fylgt fjölmargir eftirskjálftar. AP/Carlos Giusti

Minnst einn er látinn og átta slasaðir eftir að jarðskjálfti skók Púertó Ríkó í nótt. Skjálftinn mældist 6,4 stig og honum hafa fylgt fjölmargir eftirskjálftar. Í raun hafa skjálftar verið að leika íbúa eyjunnar grátt frá 28. desember og sérfræðingar segja ómögulegt að spá fyrir um hvenær þeim ljúki eða hvort von sé á stærri skjálftum.

Fyrstu mælingar gáfu í skyn að skjálftinn hefði verið 6,6 stig en nánari skoðun leiddi í ljóst að hann var 6,4. Einn eftirskjálftanna mældist sex stig.

Fjöldi bygginga hefur skemmst og jafnvel hrunið vegna skjálftanna og hefur það, auk óvissunnar, leitt til þess að fjölmargir treysta sér ekki til að halda til í húsum sínum. Þá hafa sjúklingar verið fluttir út af sjúkrahúsum og er verið að hlúa að þeim út á götu.

Þá hafa aldraðir íbúar hjúkrunarheimila einnig víða verið færðir út af ótta við hrun húsa.

Sá sem lést var 77 ára gamall og dó hann þegar veggur hrundi á hann.

Mestar skemmdir urðu á suðurhluta Púertó Ríkó en skjálftinn mældist skammt suður af eyjunni. Þá er rafmagnslaust víða og vegir skemmdir og ófærir vegna skriða. Blaðamenn AP ræddu við nokkra íbúa sem segja öngþveiti hafa myndast í umferð þar sem íbúar reyni að flýja svæðið.

Ríkisstjóri Púertó Ríkó hefur skipað opinberum starfsmönnum að halda sér heima og hvatt fólk til að sýna stillingu.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.