Erlent

Pútín heimsótti Sýrland og hitti Assad

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með þeim Pútín (t.v.) og Assad (t.h.) þegar þeir hittust í Damaskus í dag.
Vel fór á með þeim Pútín (t.v.) og Assad (t.h.) þegar þeir hittust í Damaskus í dag. Vísir/EPA

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hitti Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í Damaskus í dag. Þetta er í annað skiptið sem Pútín heimsækir Sýrland frá því að Rússar hófu afskipti sín af borgarastríðinu í landinu til stuðnings Assad.

Reuters-fréttastofan hefur eftir rússnesku fréttaveitunni Interfax að Assad hafi þakkað Pútín fyrir að hafa aðstoðað við að koma á friði í Sýrlandi. Rússneskir hermenn hafa stutt ríkisstjórn hans í borgarastríðinu frá árinu 2015. Forsetarnir tveir hlýddu á skýrslu herforingja um ástand mála í einstökum héruðum landsins, að sögn AP-fréttastofunnar.

Pútín er sagður ætla að heimsækja nokkra staði í Sýrlandi í ferðinni. Síðast heimsótti hann Sýrlandi árið 2017 þegar heilsaði upp á rússneska hermenn í Hmeymim-flugherstöðinni.

Heimsókn Pútín á sér stað í skugga vaxandi spennu í heimshlutanum eftir að Bandaríkjastjórn lét ráða Qasem Soleimani, yfirmann sérsveitar íranska byltingarvarðarins, af dögum í Írak á föstudag. Íranar hafa einnig verið lykilbandamenn Assad Sýrlandsforseta. Bandarískir hermenn eru enn í austanverðu Sýrlandi og hafa þeir verið nefndir sem möguleg skotmark hefndaraðgerða stjórnvalda í Teheran.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.