Fótbolti

Sá yngsti sem kemur liði í undanúrslit Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.
Julian Nagelsmann á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. getty/Julian Finney

Julian Nagelsmann er yngsti knattspyrnustjórinn sem hefur komið liði í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Nagelsmann er stjóri RB Leipzig sem sigraði Atlético Madrid, 2-1, í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Þjóðverjarnir mæta Paris Saint-Germain í undanúrslitum keppninnar þriðjudaginn 18. ágúst.

Nagelsmann fæddist 23. júlí 1987 og er því aðeins 33 ára og 22 daga gamall. Hann er sá yngsti sem hefur komið liði í undanúrslit Meistaradeildarinnar en gamla metið átti Didier Deschamps. 

Hann var 35 ára og sjö mánaða þegar hann kom Monaco í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2004. Þar sló Monaco Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Chelsea úr leik, 5-3 samanlagt. Monaco tapaði svo fyrir Porto í úrslitaleiknum, 3-0.

Þrátt fyrir að vera ungur að árum hefur Nagelsmann talsverða reynslu. Hann var aðeins 28 ára þegar hann var ráðinn stjóri Hoffenheim í október 2015.

Hann stýrði Hoffenheim í fjögur ár og fór þaðan til Leipzig. Undir hans stjórn endaði liðið í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er komið í undanúrslit sterkustu deildar heims.

Þar mætir Nagelsmann manninum sem réði hann í sitt fyrsta þjálfarastarf hjá varaliði Augsburg; Thomas Tuchel.

Ef Bayern München sigrar Barcelona á morgun verða þrír þýskir stjórar í undanúrslitum Meistaradeildarinnar; Nagelsmann, Tuchel og Hans-Dieter Flick.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Lissabon 23. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.