Fótbolti

Sá yngsti sem kemur liði í undanúrslit Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.
Julian Nagelsmann á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. getty/Julian Finney

Julian Nagelsmann er yngsti knattspyrnustjórinn sem hefur komið liði í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Nagelsmann er stjóri RB Leipzig sem sigraði Atlético Madrid, 2-1, í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Þjóðverjarnir mæta Paris Saint-Germain í undanúrslitum keppninnar þriðjudaginn 18. ágúst.

Nagelsmann fæddist 23. júlí 1987 og er því aðeins 33 ára og 22 daga gamall. Hann er sá yngsti sem hefur komið liði í undanúrslit Meistaradeildarinnar en gamla metið átti Didier Deschamps. 

Hann var 35 ára og sjö mánaða þegar hann kom Monaco í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2004. Þar sló Monaco Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Chelsea úr leik, 5-3 samanlagt. Monaco tapaði svo fyrir Porto í úrslitaleiknum, 3-0.

Þrátt fyrir að vera ungur að árum hefur Nagelsmann talsverða reynslu. Hann var aðeins 28 ára þegar hann var ráðinn stjóri Hoffenheim í október 2015.

Hann stýrði Hoffenheim í fjögur ár og fór þaðan til Leipzig. Undir hans stjórn endaði liðið í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er komið í undanúrslit sterkustu deildar heims.

Þar mætir Nagelsmann manninum sem réði hann í sitt fyrsta þjálfarastarf hjá varaliði Augsburg; Thomas Tuchel.

Ef Bayern München sigrar Barcelona á morgun verða þrír þýskir stjórar í undanúrslitum Meistaradeildarinnar; Nagelsmann, Tuchel og Hans-Dieter Flick.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Lissabon 23. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×