Leipzig í undanúrslit í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyler Adams (nr. 14) skoraði sigurmark RB Leipzig gegn Atlético Madrid.
Tyler Adams (nr. 14) skoraði sigurmark RB Leipzig gegn Atlético Madrid. getty/Lluis Gene

RB Leipzig er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn eftir sigur á Atlético Madrid, 2-1, í kvöld. Varamaðurinn Tyler Adams skoraði sigurmark Leipzig þegar tvær mínútur voru eftir.

Leipzig mætir Paris Saint-Germain í undanúrslitunum á þriðjudaginn. Leikurinn fer fram á Estadio da Luz, heimavelli Benfica í Lissabon.

Leipzig var meira með boltann í fyrri hálfleik en liðin fengu ekki mörg færi. Í seinni hálfleiknum færðist meira fjör í leikinn.

Leipzig náði forystunni á 50. mínútu. Eftir góða sókn sendi Marcel Sabitzer fyrir frá hægri á Dani Olmo sem skallaði boltann í fjærhornið.

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, setti Félix inn á fyrir Héctor Herrera á 59. mínútu.

Portúgalinn kom með aukinn kraft í sóknarleik Atlético og þegar 20 mínútur voru eftir braut Lukas Klostermann á honum innan vítateigs. Félix fór sjálfur á punktinn, skoraði og jafnaði í 1-1.

Það var svo annar varamaður, Adams, sem skoraði markið sem réði úrslitum. Angelino átti góða sendingu á Adams sem átti skot sem fór af Stefan Savic og í netið. Þetta var fyrsta mark Adams fyrir Leipzig og það gat ekki komið á betri tíma.

Atlético gerði hvað það gat til að jafna metin og tryggja sér framlengingu en allt kom fyrir ekki og Leipzig fagnaði sigri og sæti í undanúrslitunum.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Lissabon 23. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.