Enski boltinn

Tottenham búið að kaupa Højbjerg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emile Højbjerg með nýju Tottenham-treyjuna.
Pierre-Emile Højbjerg með nýju Tottenham-treyjuna. getty/Tottenham Hotspur FC

Tottenham hefur gengið frá kaupunum á danska miðjumanninum Pierre-Emile Højbjerg frá Southampton. Hann skrifaði undir fimm ára samning við Tottenham.

Talið er að Tottenham hafi borgað fimmtán milljónir punda fyrir Højbjerg. Southampton fékk líka bakvörðinn Kyle Walker-Peters sem lék sem lánsmaður með liðinu seinni hluta síðasta tímabils.

Everton vildi einnig fá Højbjerg en Tottenham krækti í Danann sem lék með Southampton í fjögur ár og var fyrirliði liðsins um tíma.

Højbjerg fór ungur til Bayern München en náði ekki að festa sig í sessi þar og var lánaður til bæði Augsburg og Schalke.

Højbjerg, sem er nýorðinn 25 ára, er fyrsti leikmaðurinn sem Tottenham kaupir í sumar. Jan Vertongen, Michel Vorm og Walker-Peters eru hins vegar farnir frá félaginu.

Tottenham endaði í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×