Íslenski boltinn

„Í versta falli þurfum við að geta sagt nei“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar snúa aftur í Evrópukeppni í haust eftir eins árs fjarveru.
FH-ingar snúa aftur í Evrópukeppni í haust eftir eins árs fjarveru. vísir/hag

FH bíður enn eftir endanlegu svari frá yfirvöldum hvort liðið geti mætt Dunajská Streda frá Slóvakíu í forkeppni Evrópudeildarinnar 27. ágúst. FH-ingar þurfa að svara UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, fyrir klukkan 11:00 á morgun hvort leikurinn gegn Dunajská Streda geti farið fram hér á landi.

Forráðamenn íslensku liðanna sem taka þátt í Evrópukeppnum funduðu með Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra íþróttamála, og KSÍ í dag.

„Þessi hópur var mjög sammála um að gera sitt besta að takast á við þessi úrlausnarefni af ábyrgð og festu og ná þannig að standa við okkar skuldbindingar að taka þátt í Evrópukeppnum,“ sagði Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, í samtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í Sportpakkanum á Stöð 2.

„Það væri mikið reiðarslag fyrir íslenskan fótbolta ef við tækjum ekki þátt í Evrópukeppnum. Við þurfum að taka þá ábyrgð að fara vel með þetta, gera þetta vel og uppfylla sett skilyrði.“

FH-ingar bíða enn eftir endanlegu svari frá yfirvöldum en Valdimar kveðst bjartsýnn á að hægt verði að spila hér á landi í lok mánaðarins.

„Við viljum auðvitað svara játandi en erum enn að ráða ráðum okkar og viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur. Við vonumst til að komast að þeirri niðurstöðu fyrir þennan tímafrest að geta spilað leikinn. Í versta falli þurfum við að geta sagt nei og gera aðrar, dýrar og flóknar aðgerðir til að geta uppfyllt það,“ sagði Valdimar.

„Það er ekki enn búið að taka þá ákvörðun endanlega en við teljum okkur vera nær því en hitt eftir þessa góðu vinnu í dag.“

Viðtalið við Valdimar má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Valdimar um Evrópuleik FH-inga

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×