Fótbolti

Silva virðist ætla að halda sig við ljósblátt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Silva ku vera á leiðinni til Lazio þegar þátttöku City í Meistaradeildinni lýkur.
Silva ku vera á leiðinni til Lazio þegar þátttöku City í Meistaradeildinni lýkur. EPA-EFE/Shaun Botterill

Spænski töframaðurinn David Silva mun leika með Lazio í ítölsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð samkvæmt heimildum Sky Sports.

Hinn 34 ára gamli Silva hefur verið í herbúðum Manchester City undanfarinn áratug. Á þeim tíma hefur hann unnið ellefu titla með félaginu, þar af fjóra Englandsmeistaratitla. Hann er leikjahæsti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að vera sá stoðsendingahæsti.

Svo virðist sem Silva líki einkar vel við ljósblátt og mun hann skrifa undir hjá Lazio eftir að þátttöku City í Meistaradeild Evrópu lýkur.

Eftir að hafa verið í baráttunni um ítalska meistaratitilinn framan af tímabili þá endaði Lazio í 4. sæti, fimm stigum á eftir meisturum Juventus.

Simone Inzghi spilar að mestu með fimm manna miðju hjá Lazio og því ætti að vera nóg pláss fyrir Silva til að blómstra þó hann sé kominn af léttasta skeiði.

Sky Sports greindi frá en enn er óvíst hversu langur samningur Silva við Lazio yrði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.