Erlent

Handtekin og kærð fyrir að setja fána á styttur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá mótmælum hinsegin fólks í Varsjá gegn Duda forseta. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá mótmælum hinsegin fólks í Varsjá gegn Duda forseta. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Piotr Lapinski/Getty

Þrennt hefur verið handtekið og ákært fyrir að hafa hengt regnbogafána, sem táknar samfélag hinsegin fólks, á styttur í Varsjá, höfuðborg Póllands. Fólkið er ákært fyrir að vanhelga minnismerki og að móðga trúarlega sannfæringu fólks.

Fólkið hengdi fánana upp í mótmælaskyni við stefnumál Andrzej Duda, forseta Póllands. Hann er afar mótfallinn samkynhneigðum og hinsegin fólki. Fánarnir voru hengdir á styttu af hafmeyju, Jesú Kristi og stjörnufræðingnum Nikulási Kópernikus.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, hefur fordæmt athæfi mótmælendanna og sagt að stytturnar standi fyrir gildi sem mikilvæg séu milljónum Pólverja. Mótmælendur hafa hins vegar sagt að með athæfinu hafi þeir verið að mótmæla hugmyndafræði stjórnvalda, sem byggi á fordómum í garð hinsegin fólks.

Saksóknarar hafa ekki enn tekið ákvörðun um hvort þeir láti reyna á málið fyrir dómi en við því að móðga trúarlega sannfæringu í Póllandi getur legið allt að tveggja ára fangelsisrefsins.

Duda forseti verður settur í embætti öðru sinni í dag en hann vann í síðasta mánuði nauman sigur á mótframbjóðanda sínum, Rafal Trzaskowski. Sá síðarnefndi er borgarstjóri Varsjár.

Í kosningabaráttu sinni fyrir kosningarnar sagði Duda að hann myndi vilja innleiða bann við hjónaböndum og rétti samkynhneigðra til að ættleiða í stjórnarskrá Póllands. Hann hefur að sama skapi sagt að „hugmyndafræði hinsegin fólks“ væri „verri en kommúnismi.“

Hjónabönd samkynhneigðra eru ekki viðurkennt í Pólland í dag. Þá er samkynja pörum, samkvæmt lögum, ekki leyfilegt að ættleiða börn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×