Enski boltinn

Arteta segir sigurinn á Chelsea sitt helsta afrek á ferlinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arteta með bikarinn í gær. 
Arteta með bikarinn í gær.  EPA-EFE/Cath Ivill

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, segir sigur liðsins á Chelsea í úrslitum FA-bikarsins í gær vera sitt helsta afrek á ferlinum. Þá sagðist Arteta ætla að byggja lið sitt í kringum hetju gærdagsins, Pierre Emerick-Aubameyang.

Arsenal vann 2-1 sigur eftir að hafa lent 1-0 undir snemma leiks. Aubameyang skoraði bæði mörkin og tryggði Arsenal þar með sinn 14. FA-bikartitil en það er met.

„Ég held það. Ég er mjög stoltur af því sem við afrekuðum og ég veit hversu erfitt það hefur verið. Fyrir mig persónulega hafa þetta verið erfiðir sex mánuðir út af mörgu sem hefur gerst í lífi okkar allra. En ég hafði aðeins eitt markmið þegar ég gekk til liðs við félagið og það var að fá leikmenn og starfsfólk til að trúa því að við gætum unnið,“ sagði Arteta eftir leik aðspurður hvort þetta væri hans helsta afrek á ferlinum.

„Við þurfum að breyta bæði orkunni sem við setjum í leiki sem og hugarfari okkar,“ sagði Arteta einnig.

Arteta lék með Arsenal frá 2011 þangað til hann lagði skóna á hilluna 2016. Var hann fyrirliði liðsins síðustu tvö ár og vann FA-bikarinn tvívegis sem leikmaður. Eftir að skórnir fóru að hilluna varð hann aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Manchester City. Hann tók síðan við stjórastarfinu hjá Arsenal í desember á síðasta ári.

Arsenal endaði í 8. sæti í ensku úrvalsdeildinni með 56 stig eða tíu minna en Chelsea sem náði fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu. FA-bikarinn var þó smá sárabót á annars erfitt tímabil Arsenal-manna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.