Erlent

Fleiri en 200.000 látnir í Rómönsku Ameríku

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá skimun fyrir kórónuveirunni í Mexíkóborg. Landið tók nýlega fram úr Bretlandi og settist í þriðja sætið á lista ríkja með flest dauðsföll í faraldrinum.
Frá skimun fyrir kórónuveirunni í Mexíkóborg. Landið tók nýlega fram úr Bretlandi og settist í þriðja sætið á lista ríkja með flest dauðsföll í faraldrinum. Vísir/EPA

Tala látinna í Rómönsku Ameríku í kórónuveiruheimsfaraldrinum fór yfir 200.000 manns í gær. Verst er ástandið í Brasilíu og Mexíkó þar sem um 70% dauðsfalla í heimshlutanum til þessa hafa orðið. Nýjum smitum fjölgar enn í löndunum.

Rómanska Ameríka er einn af miðpunktum kórónuveiruheimsfaraldursins. Aðeins í Bandaríkjunum hefur veiran dregið fleiri til dauða en í Brasilíu og Mexíkó.

Tilkynnt var um 1.595 dagleg dauðsföll í Brasilíu í fyrri hluta síðustu viku og höfðu þau aldrei verið fleiri. Dauðsföllin voru hátt í 1.100 í gær. Í Mexíkó létust 784 í gær og ný smit fóru í fyrsta skipti yfir 9.000 manns. Breska ríkisútvarpið BBC segir að mexíkósk yfirvöld telji að raunverulegur fjöldi smitaðra sé líklega mun hærri en opinberar tölur benda til.

Þegar yfirvöld í Perú tilkynntu um 191 dauðsfall af völdum veirunnar í gærkvöldi fór heildarfjöldi látinna í Rómönsku yfir 200.000 manns samkvæmt talningu Reuters-fréttastofunnar.

Á heimsvísu hafa nú fleiri en 17,5 milljónir manna greinst með veiruna og hátt í 679.000 manns látið lífið samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum. Af þeim hafa rúmlega 150.000 manns látist í Bandaríkjunum og rúmlega 90.000 í Brasilíu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.