Erlent

Þúsundir mótmæla enn rússnesku ríkisstjórninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn handtaka mótmælanda í Khabarovsk í dag. Yfirvöld á svæðinu hafa ekki tekið eins hart fyrir mótmæli eins og gerist iðulega í Moskvu.
Lögreglumenn handtaka mótmælanda í Khabarovsk í dag. Yfirvöld á svæðinu hafa ekki tekið eins hart fyrir mótmæli eins og gerist iðulega í Moskvu. AP/Dmitrí Lovetskí

Fjölmenn mótmæli gegn rússnesku ríkisstjórninni héldu áfram í borginni Khabarovsk í Fjarausturhéraði Rússlands í dag, fjórðu helgina í röð. Mótmælendur krefjast þess að ríkisstjóra svæðisins sem var handtekinn fyrir aðild að morðum í júlí verði sleppt.

Minni mótmæli voru haldin í að minnsta kosti tíu öðrum borgum og segir AP-fréttastofan að 55 manns hafi verið handteknir í þeim. Ekki hefur verið greint frá handtökum í kringum mótmælafundinn í Khabarovsk.

Stuðningsmenn Sergei Furgal, ríkisstjóra Khabarovsk Krai-héraðs, telja að hann hafi verið handtekinn til þess að refsa honum fyrir að vinna sigur á frambjóðanda Sameinaðs Rússlands, flokks Vladímírs Pútín forseta árið 2018. 

Furgal var handtekinn fyrir meinta aðild að morðum á kaupsýslumönnum árið 2004 og 2005 og fluttur í fangelsi í Moskvu 9. júlí. Hann neitar alfarið sök en stjórnvöld í Kreml segja ásakanirnar á hendur honum alvarlegar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Dagleg mótmæli hafa verið haldin í Khabarovsk-borg undanfarnar þrjár vikur. Furgal nýtur mikilla vinsælda í héraðinu en hann hefur meðal annars lækkað eigin laun og skipað fyrir um að snekkjur sem fyrri héraðsstjórn keypti skyldu seldar.

Pútín forseti hefur þegar skipað Mikhail Degtjarjov, þingmann á rússneska þinginu og flokksbróður Furgal í Frjálslynda lýðræðisflokknum, sem starfandi ríkisstjóra. Mótmælendur segja að Degtjarjov hafi engin tengsl við héraðið og vilja að hann stígi til hliðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.