Erlent

Þúsundir mótmæla enn rússnesku ríkisstjórninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn handtaka mótmælanda í Khabarovsk í dag. Yfirvöld á svæðinu hafa ekki tekið eins hart fyrir mótmæli eins og gerist iðulega í Moskvu.
Lögreglumenn handtaka mótmælanda í Khabarovsk í dag. Yfirvöld á svæðinu hafa ekki tekið eins hart fyrir mótmæli eins og gerist iðulega í Moskvu. AP/Dmitrí Lovetskí

Fjölmenn mótmæli gegn rússnesku ríkisstjórninni héldu áfram í borginni Khabarovsk í Fjarausturhéraði Rússlands í dag, fjórðu helgina í röð. Mótmælendur krefjast þess að ríkisstjóra svæðisins sem var handtekinn fyrir aðild að morðum í júlí verði sleppt.

Minni mótmæli voru haldin í að minnsta kosti tíu öðrum borgum og segir AP-fréttastofan að 55 manns hafi verið handteknir í þeim. Ekki hefur verið greint frá handtökum í kringum mótmælafundinn í Khabarovsk.

Stuðningsmenn Sergei Furgal, ríkisstjóra Khabarovsk Krai-héraðs, telja að hann hafi verið handtekinn til þess að refsa honum fyrir að vinna sigur á frambjóðanda Sameinaðs Rússlands, flokks Vladímírs Pútín forseta árið 2018. 

Furgal var handtekinn fyrir meinta aðild að morðum á kaupsýslumönnum árið 2004 og 2005 og fluttur í fangelsi í Moskvu 9. júlí. Hann neitar alfarið sök en stjórnvöld í Kreml segja ásakanirnar á hendur honum alvarlegar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Dagleg mótmæli hafa verið haldin í Khabarovsk-borg undanfarnar þrjár vikur. Furgal nýtur mikilla vinsælda í héraðinu en hann hefur meðal annars lækkað eigin laun og skipað fyrir um að snekkjur sem fyrri héraðsstjórn keypti skyldu seldar.

Pútín forseti hefur þegar skipað Mikhail Degtjarjov, þingmann á rússneska þinginu og flokksbróður Furgal í Frjálslynda lýðræðisflokknum, sem starfandi ríkisstjóra. Mótmælendur segja að Degtjarjov hafi engin tengsl við héraðið og vilja að hann stígi til hliðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×