Innlent

Telur ekki að of brátt hafi verið farið í opnun landsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín segir Ísland hafa nálgast komu ferðamanna hingað til lands með varfærni.
Katrín segir Ísland hafa nálgast komu ferðamanna hingað til lands með varfærni. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki telja að of brátt hafi verið farið í opnun landsins og að ekki hafi verið mistök að liðka fyrir komu ferðamanna hingað til lands.

Þetta kom fram í máli hennar á fréttamannafundi vegna hertra aðgerða í baráttunni við faraldur kórónuveirunnar.

Katrín segir að þegar Ísland sé borið saman við aðrar þjóðir komi í ljós að Ísland hafi nálgast komur til landsins með varfærnasta mögulega hætti. Segir hún skimun á landamærunum hafa sýnt gildi sitt og sannað. Nú sé hins vegar verið að herða aðgerðir á landamærunum.

„Við vitum að stór hluti sem hefur verið að koma hingað eru Íslendingar að snúa heim. Þetta er ekki einlitur veruleiki sem við búum í. Við vorum meðvituð um þessa áhættu en herðum núna reglurnar og gæti þurft að koma til frekari herðinga síðar,“ sagði Katrín.

Lá fyrir að grípa þyrfti inn í

Í viðtali við fréttastofu beint eftir fundinn sagði Katrín að hertar aðgerðir vegna faraldursins hafi verið aðaldagskrármálið á fundi ríkisstjórnar í morgun. Það hafi legið fyrir að grípa þyrfti inn í vegna fjölgunar smita.

Þá útilokar Katrín ekki að stjórnvöld grípi til frekari efnahagsaðgerða vegna áhrifa veirunnar á hagkerfið. Þá benti Katrín á að ekki sé verið að leggja til lokanir á þjónustu heldur sé verið að gera kröfu til almennings um að viðhafa sóttvarnir.

Þá sagði Katrín að eins og sakir standa þurfi ekki að kalla þingið saman til þess að bregðast við. Hins vegar séu allir þingmenn meðvitaðir um að þeir gætu þurft að vera á bakvakt það sem eftir lifir sumri.

Klippa: Viðtal við Katrínu Jakobsdóttur


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×