Innlent

Eitt smit tengt Akranesi, annað ferðamanni en hin óþekkt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skimað fyrir kórónuveirunni.
Skimað fyrir kórónuveirunni. Vísir/vilhelm

Ekki hefur tekist að rekja uppruna tveggja innanlandssmita kórónuveiru af þeim fjórum sem greindust í gær. Hin smitin tvö eru annars vegar tengd erlendum ferðamanni og hins vegar hópsmitinu á Akranesi. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri almannavarna í samtali við Vísi.

Hann þekkir ekki hvort smitið sem tengist ferðamanninum sé tengt smitkeðju sem var til umræðu á upplýsingafundi almannavarna í gær. Þar sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis að í sömu viku og fyrstu sýkingarnar í hrinunni sem nú gengur yfir komu upp hafi erlendur ferðamaður smitað leiðsögumann. Í gær hafði fjölskyldumeðlimur þess aðila einnig greinst með veiruna.

Sjö einstaklingar sem hafa greinst smitaðir af kórónuveiru á Akranesi undanfarna daga eru erlendir verkamenn sem búa saman. Þórir Bergmundsson, sóttvarnalæknis Vesturlands, sagði í samtali við Vísi í gær að enginn þeirra væri alvarlega veikur.

Jóhann minnir jafnframt á mikilvægi einstaklingssmitvarna nú þegar smitum fjölgar. Áríðandi sé að fólk virði tilmæli um nándarmörk og verndi viðkvæma hópa. Þá séu fyrirtæki og stofnanir hvött til þess að skerpa á sóttvörnum og leiðbeiningum. Þá er áríðandi að fólk virði einangrun, sóttkví og taki heimkomusmitgát af fyllstu alvöru.

Þeir sem finni fyrir einkennum Covid-sýkingar skuli halda sig heima og hafa samband við sína heilsugæslu í gegnum síma, við netspjall Heilsuveru.is eða við Læknavaktina í síma 1700.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×