Sjö einstaklingar sem hafa greinst smitaðir af kórónuveiru á Akranesi undanfarna daga eru erlendir verkamenn sem búa saman. Sóttvarnalæknir Vesturlands segir engan þeirra alvarlega veikan og engin frekari smit hafi greinst í tengslum við hópsýkinguna.
Greint var frá því á sunnudag að sex ný innanlandssmit hefðu greinst og tengdust þau öll einstaklingi sem kom til landsins frá einu Eystrasaltslandanna 15. júlí og greindist síðar smitaður. Hann hafi skráð sig inn á erlendri kennitölu sinni en ekki íslenskri. Því hafi ekki verið gerð krafa um að hann sætti heimkomusmitgát og gengist undir aðra sýnatöku eftir komuna til landsins.
Þórir Bergmundsson, sóttvarnalæknis Vesturlands, segir við Vísi að maðurinn sem greindist fyrst smitaður hafi reynst neikvæður fyrir veirunni við skimun á landamærunum. Þeir sex sem hafa síðan greinst smitaðir séu erlendir verkamenn sem starfa og búa með honum.
Fólkið sé nú í einangrun og smitrakningarteymi hafi gert viðeigandi ráðstafanir. Ekkert þeirra sé alvarlega veikt. Enn er unnið að því að greina smitin og uppruna þeirra.

Bæjaryfirvöldum á Akranesi hafa ekki verið gefin fyrirmæli um sérstakar ráðstafanir vegna hópsýkingarinnar, að sögn Sævars Freys Þráinssonar, bæjarstjóra. Þau fylgi þeim almennu ráðstöfunum sem sóttvarnayfirvöld gefa út á hverjum tíma.
Sævar Freyr segir Vísi að hópsýkingin sýni að faraldrinum sé hvergi nærri lokið og að hún ætti að vera fólki brýning um að virða sóttvarnareglur.
„Við búum við á Íslandi núna töluvert frelsi sem margar þjóðir búa ekki við í þessu sambandi og það er mikilvægt að við virðum þessar reglur svo við fáum að halda áfram í það frelsi. Þetta er ekki sjálfsagður hlutur og þess vegna verður að taka þetta alvarlega. Þetta á ekki bara við um Akranes, þetta á við um alla landsmenn,“ segir bæjarstjórinn.