Innlent

Hafa á­hyggjur af verslunar­manna­helginni

Sylvía Hall skrifar
Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld funduðu með heilbrigðisráðherra í dag um næstu skref.
Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld funduðu með heilbrigðisráðherra í dag um næstu skref. Lögreglan

Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld skoða nú hvort herða þurfi gildandi samkomutakmarkanir og koma aftur á svokallaðri tveggja metra reglu. Þau hafi áhyggjur af verslunarmannahelginni þar sem viðbúið er að margir verði á faraldsfæti og hætta á að smit dreifist frekar í samfélaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum þar sem farið er yfir stöðu mála. Heilbrigðisráðherra fundaði nú síðdegis með almannavörnum, landlækni, sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra vegna nýrra kórónuveirusmita. Engin ákvörðun var tekin á fundinum en til skoðunar er að hækka viðbúnaðarstig almannavarna.

Fjórtán virk innanlandssmit eru í landinu en ekki hefur tekist að rekja tvö smit.

Niðurstöður úr raðgreiningu smitanna tveggja munu varpa frekara ljósi á það hvort þörf sé á harðari aðgerðum. Samráðshópurinn mun koma aftur saman á morgun og munu næstu skref vera ákveðin meðal annars út frá því hvort smitin tengist hópsýkingu sem kom upp nú á dögunum.

„Áríðandi er að fólk taki upp og haldi á lofti einstaklingsbundnum sóttvörnum, virði tilmæli um nándarmörk og verndi viðkvæma hópa. Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til þess að skerpa á sóttvörnum og leiðbeiningum. Þá er áríðandi að fólk virði einangrun, sóttkví og taki heimkomusmitgát af fyllstu alvöru,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Skoða hertar aðgerðir og boða frekari skimun vegna fjölgunar smita

Til umræðu er nú að herða sóttvarnaaðgerðir innanlands og hugsanlega á landamærunum vegna nýrra kórónuveirusmita frá mismunandi uppsprettum undanfarna daga, að sögn staðgengils sóttvarnalæknis. Frekari skimun fyrir veirunni hefst á næstu dögum.

Allir þeir smituðu á Akranesi búa saman

Sjö einstaklingar sem hafa greinst smitaðir af kórónuveiru á Akranesi undanfarna daga eru erlendir verkamenn sem búa saman. Sóttvarnalæknir Vesturlands segir engan þeirra alvarlega veikan og engin frekari smit hafi greinst í tengslum við hópsýkinguna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×