Erlent

Yfirmaður sóttvarna í Kína sprautaði sig með tilraunamótefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Gao Fu, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Kína.
Gao Fu, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Kína. AP/Mark Schiefelbein

Gao Fu, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Kína, CCDC, segist hafa verið sprautaður af tilraunamótefni gegn Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. Það segist Gao hafa gert til að sannfæra almenning um að það væri öruggt þegar umfangsmeiri tilraunir verða samþykktar.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar sagði Gao ekki hvort hann hefði verið sprautaður af mótefninu vegna samþykktar tilraunar og hefur hann ekki svarað fyrirspurnum fréttaveitunnar.

Fyrr í þessum mánuði voru stjórnendur og starfsmenn lyfjafyrirtækis í eigu ríkisins sprautaðir af tilraunamótefni, þrátt fyrir að tilraunir á mönnum hafi ekki verið samþykktar þá.

Lyfjafyrirtæki um heim allan keppast nú um að framleiða mótefni við Covid-19. Slíkt yrði mikill sigur fyrir það ríki sem verður fyrst, bæði pólitískt séð og vísindalega. Þar að auki gæti það verið reynst ríkjunum vel, efnahagslega.

Af þeim mótefnum sem þykja líklegust til að bera árangur koma minnst átta frá Kína. Samkvæmt AP eru þau rúmlega tuttugu og þar af átta frá Kína. Gao vildi ekki segja hvaða mótefni hann hefði verið sprautaður og sagðist hann ekki vilja líta út fyrir að ganga erinda einhverra sérstakra lyfjafyrirtækja.

Gao hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni í Kína og um heim allan vegna upprunalegra viðbragða CCDC á faraldri nýju kórónuveirunnar. AP segir hann hafa stigið úr sviðsljósinu í kjölfar faraldursins og að hann hafi ekki sést opinberlega í marga mánuði.

Um 30 þúsund Bandaríkjamenn taka þátt í stærstu mótefnatilrauninni hingað til sem hófst í gær. Fólk víðsvegar um landið voru sprautuð af mótefni eða lyfleysu. Sú tilraun er á vegum National Institutes of Health og Moderna. Annað fyrirtæki, Pfizer, tilkynnti einnig að það væri að byrja eigin tilraun sem ætti að ná til 30 þúsund manna.

Það eru þó nokkrir mánuðir þar til niðurstöður munu liggja fyrir.

Í dag hafa um 16 og hálf milljón manna smitast af Covid-19, svo vitað sé, og rúmlega 650 þúsund manns hafa dáið. Þar af hafa nærri því 150 þúsund dáið í Bandaríkjunum, nærri því 90 þúsund í Brasilíu og rúmlega 45 þúsund í Bretlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×