Erlent

Aukin harka í mótmælum í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ómerktir alríkislögregluliðar ráðast gegn konu á mótmælum í nafni „Svört líf skipta máli“ við alríkisdómshúsið sem hefur verið miðpunktur mótmæla undanfarinna vikna í nótt.
Ómerktir alríkislögregluliðar ráðast gegn konu á mótmælum í nafni „Svört líf skipta máli“ við alríkisdómshúsið sem hefur verið miðpunktur mótmæla undanfarinna vikna í nótt. AP/Marcio Jose Sanchez

Til ákafra átaka kom á milli mótmælenda og lögreglumanna í Portland í Bandaríkjunum í nótt. Aukin harka færðist í mótmæli sem hafa geisað vegna lögregluofbeldis og kerfislægrar kynþáttahyggju víðar í Bandaríkjunum um helgina.

Alríkislögreglumenn skutu táragasi, höggsprengjum og piparkúlum til þess að tvístra mótmælendum fyrir utan alríkisdómshús í miðborg Portland í nótt, að sögn AP-fréttastofunnar. Einhverjir mótmælendanna höfðu klifað yfir girðingu við dómshúsið en aðrir skutu flugeldum, börðu girðinguna og vörpuðu myndum á bygginguna.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um að skotum hefði verið hleypt af og taska með hlöðnum skothylkjum í hríðskotariffil og bensínsprengjum fannst í garði í borginni. Mótmælin voru þó friðsöm lengi framan af en leikar tóku að æsast þegar alríkislögreglumenn, sem voru sendir til Portland í óþökk yfirvalda í borginni og Oregon-ríki, lýsti samkomuna ólöglega og hugðust rýma svæði við alríkisbyggingar.

Nokkur fjöldi fólks var handtekinn. Mótmælin í Portland hafa nú geisað í meira en fimmtíu nætur eftir dauða George Floyd, óvopnaðs blökkumanns, í haldi lögreglunnar í Minneapolis í maí.

Borgaryfirvöld og ríkisyfirvöld í Oregon hafa beðið alríkisstjórnina um að draga lögreglulið sitt til baka frá Portland en þau telja að vera þess æsi aðeins til frekari mótmæla. Alríkislögregluliðið fer um ómerkt í felulitum og hefur handtekið fólk fyrir litlar eða engar sakir án þess að gera grein fyrir sér.

Mótmælandi leikur á trompet ofan á girðingu utan um Mark O. Hatfield-alríkisdómshúsið í miðborg Portland í nótt. Lögregla lýsti samkomuna ólöglega og dreifði mótmælendum með táragasi, höggsprengjum og ertandi efnum.AP/Marcio Jose Sanchez

Lausmunum kastað og skotum hleypt af

Harka færðist í mótmæli í fleiri borgum um helgina. Í Austin í Texas var karlmaður skotinn til bana á kröfufundi í miðborginni. Í Richmond í Virginíu var kveikt í bifreið fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í Denver særðist mótmælandi þegar skotum var hleypt af úr bíl sem var ekið fram hjá hópi þeirra, að sögn Washington Post.

Í Los Angeles í Kaliforníu skutu lögreglumenn á mótmælendur við alríkisdómshús. Mótmælendur í Seattle lögðu eld að framkvæmdasvæði þar sem fangelsi fyrir ungmenni er í byggingu. Lögreglan þar segir mótmælendur hafa kastað steinum, flöskum og flugeldum að lögreglumönnum á laugardag. Þrír lögreglumenn hafi særst og 25 mótmælendur verið handteknir.

Donald Trump forseti, sem hefur lagt allt kapp á að lýsa mótmælendunum sem ofbeldisfullum öfgavinstrimönnum og spyrða Joe Biden, væntanlegan forsetaframbjóðanda demókrata, saman við þá, hélt áfram að bölsótast út í mótmælin um helgina. Fullyrti forsetinn að hópur kvenna sem hefur tekið þátt í mótmælunum í Portland og kallar sig „Mömmuvegginn“ sigli undir fölsku flaggi án nokkurra sannana.

„„Mótmælendurnir“ eru í raun stjórnleysingjar sem hata landið okkar. Röð saklausra „mæðra“ var gabb sem [fjölmiðlar] neita að viðurkenna, alveg eins og þeir segja ekki frá ofbeldinu í þessum mótmælum,“ fullyrti forsetinn ranglega.


Tengdar fréttir

Hvetja Bandaríkjastjórn til þess að hafa hemil á lögreglunni

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hvatti Bandaríkjastjórn til þess að tryggja að lögreglu- og öryggissveitir beiti mótmælendur og blaðamenn ekki valdi í ósamræmi við tilefni eða handtaki þá ólöglega. Bandarískur dómari skipaði alríkislögreglumönnum í Portland að láta blaða- og eftirlitsmenn í friði í mótmælum sem geisa þar.

Alríkislögregla skaut táragasi á borgarstjóra Portland

Borgarstjóri Portland í Oregon í Bandaríkjunum var í hópi mótmælenda sem löggæsluliðar alríkisstjórnarinnar skutu táragasi á í gærkvöldi. Mótmælin beindust að veru ómerktra og þungvopnaðra alríkislögreglumanna í felulitum í borginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×