Fótbolti

Þjálfari Kolbeins rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Rikard Norling hefur verið sagt upp hjá AIK.
Rikard Norling hefur verið sagt upp hjá AIK. VÍSIR/GETTY

Rikard Norling hefur verið rekinn sem þjálfari sænska knattspyrnufélagsins AIK, innan við tveimur árum eftir að hafa gert liðið að meistara. Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson mun því fá nýjan þjálfara.

Norling tók við AIK í annað sinn á ferlinum árið 2016 og hann fékk Kolbein til félagsins fyrir leiktíðina í fyrra. Undir stjórn Norling varð AIK sænskur meistari árið 2018 og var hann þá kjörinn þjálfari ársins.

Liðið endaði í 4. sæti í fyrra, fjórum stigum á eftir meisturum Djurgården, en er aðeins í 12. sæti eftir ellefu leiki í sumar.

Kolbeinn hefur lítið getað beitt sér fyrir AIK á þessari leiktíð vegna meiðsla og aðeins verið í byrjunarliðinu í tveimur leikjum, og þrisvar komið inn á sem varamaður. Hann spilaði síðast 2. júlí.

Samkvæmt Expressen er Bartosz Grzelak líklegur til að taka við AIK. Hann er 41 árs og núverandi aðstoðarþjálfari U21-landsliðs Svía, sem mætir einmitt Íslandi í haust. Hann var áður aðstoðarþjálfari hjá AIK fram til ársins 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×