Enski boltinn

David Luiz setti vafasamt met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Luiz er ekki allra.
David Luiz er ekki allra. getty/David Price

David Luiz fékk á sig vítaspyrnu þegar Arsenal sigraði Watford, 3-2, í lokaumferð ensku úrvalsdeildinni í gær.

Það eru ekki nýjar fréttir en þetta var fimmta vítaspyrnan sem Luiz fékk á sig á tímabilinu. Aldrei hefur einn leikmaður fengið á sig fleiri víti á einu tímabili í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Luiz fékk á sig víti í báðum leikjunum gegn Watford og svo gegn Liverpool, Chelsea og Manchester City.

Brasilíski miðvörðurinn kom til Arsenal frá Chelsea fyrir síðasta tímabil. Hann lék 33 leiki með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og skorað tvö mörk. Luiz fékk einnig tvö rauð spjöld, annað fyrir vítið sem hann fékk á sig gegn Chelsea í janúar og hitt fyrir vítið sem hann fékk á sig gegn City í júní.

Luiz átti vægast sagt vonda innkomu í leiknum gegn City sem var sá fyrsti hjá liðunum eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins. Hann kom inn á þegar 24 mínútur voru liðnar af leiknum. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks gerði hann mistök sem leiddu til marks Raheems Sterling. Í upphafi seinni hálfleiks togaði hann svo Riyad Mahrez niður innan teigs, fékk á sig víti og var rekinn út af.

Margir bjuggust við að þetta yrði síðasti leikur Luiz í treyju Arsenal en svo reyndist ekki vera. Hann skrifaði undir nýjan eins árs samning við Lundúnaliðið skömmu eftir leikinn fræga gegn City.

Arsenal endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem er versti árangur liðsins frá tímabilinu 1994-95. Skytturnar geta þó endað tímabilið á góðum nótum en Arsenal mætir Chelsea í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×