Fótbolti

Leikmenn Real Madrid undanþegnir reglum um sóttkví

Sindri Sverrisson skrifar
Karim Benzema og Sergio Ramos kátir eftir að hafa orðið spænskir meistarar á dögunum. Keppnistímabilinu lýkur ekki fyrr en í ágúst hjá þeim.
Karim Benzema og Sergio Ramos kátir eftir að hafa orðið spænskir meistarar á dögunum. Keppnistímabilinu lýkur ekki fyrr en í ágúst hjá þeim. VÍSIR/GETTY

Zinedine Zidane og lærisveinar hans í Real Madrid munu geta mætt til Englands í seinni leik sinn við Manchester City, í Meistaradeild Evrópu, án þess að þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví.

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að ferðamenn frá Spáni þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví, til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Á því eru þó undantekningar, eins og í tilfelli keppnisliða á hæsta stigi íþrótta. Þetta staðfesti ráðuneyti íþróttamála við Sky Sports.

Ráðuneytið segir að þeir einstaklingar sem undanþegnir séu reglunum muni aðeins vera á afmörkuðum svæðum, fyrir luktum dyrum. Þetta eigi við um íþróttastjörnur, dómara, þjálfara, læknateymi og fjölmiðlafólk.

Madridingar geta því mætt Manchester City þann 7. ágúst án þess að þurfa að dvelja lengi á Englandi, en þeir eru 2-1 undir í einvíginu eftir að hafa tapað á Santiago Bernabeu þann 26. febrúar. Sigurliðið kemst áfram í 8-liða úrslit sem fram fara í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×