Erlent

Covid-berinn grunaður um nauðgun í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un á neyðarfundi í gær.
Kim Jong Un á neyðarfundi í gær. EPA/KCNA

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur lýst yfir neyðarástandi og komið á útgöngubanni í bæ á landamærum Norður- og Suður-Kóreu eftir að ríkismiðlar sögðu frá því að maður sem laumaðist yfir landamæri ríkjanna sé grunaður um að hafa flutt nýju kórónuveiruna til landsins. Ef maðurinn er í raun smitaður yrði það fyrsta staðfesta tilfelli Covid-19 í Norður-Kóreu.

KCNA, ríkismiðill Norður-Kóreu, segir manninn hafa flúið til Suður-Kóreu fyrir þremur árum. Hann er sagður hafa snúið aftur þann 19. júlí. Herforingjaráð Suður-Kóreu segir miklar líkur á því að maður hafi laumað sér yfir landamærin og farið til Keasong í Norður-Kóreu. Verið sé að fara yfir upptökur úr myndavélum á landamærunum.

Yonhap fréttaveitan segir yfirvöld hafa verið að leita 24 ára gamals manns frá Norður-Kóreu sem hafi flúið til Suður-Kóreu árið 2017. Hann er grunaður um að hafa nauðgað konu í síðasta mánuði en hún hafði einnig flúið frá Norður-Kóreu.

Sá maður, sem gengur undir nafninu Kim, er sagður hafa synt til Suður-Kóreu á sínum tíma og er talið líklegt að hann hafi nú synt í hina áttina, í stað þess að lauma sér yfir landamærin, sem eru víggirt.

Flóttamenn frá Norður-Kóreu hljóta þriggja mánaða endurmenntun og eftir það fylgist lögreglan með þeim í fimm ár. Það hefur þó reynst mjög erfitt sökum þess hve margir flóttamenn eru í Suður-Kóreu.

Yfirlýsingin til marks um neyð

Sérfræðingar segja merkilegt að yfirvöld í Norður-Kóreu hafi tilkynnt að grunur sé um smit í landinu. Einn sem Reuters ræddi við segir það mögulega til marks um að einræðisstjórn Kim sé að leita eftir aðstoð. Það að veiran hafi borist til Norður-Kóreu frá Suður-Kóreu geri honum kleift að taka við aðstoð frá nágrönnum sínum án þess að líta illa út í augum íbúa einræðisríkisins.

Efnahagur Norður-Kóreu hefur beðið verulega hnekki vegna viðskiptaþvingana og refsiaðgerða sem eru til komnar vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana einræðisríkisins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.