Erlent

Kröfðu far­þega til Ís­lands um niður­stöður skimunar fyrir brott­för

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
British Airways hefur beðist afsökunar.
British Airways hefur beðist afsökunar. Vísir/EPA

Breska flugfélagið British Airways hefur beðist afsökunar á að hafa skikkað farþega sína frá Heathrow-flugvelli í London til Reykjavíkur til að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr kórónuveiruprófi fyrir brottför. Farþegar frá Bretlandi þurfa að undirgangast skimun við komuna á Keflavíkurflugvöll. Félagið er hætt að krefja farþega um neikvæða niðurstöðu kórónuveiruprófs.

Frá þessu er greint í The Independent. Þar segir að fjöldi farþega hafi bókað ferð til „eyjunnar í Norður-Atlantshafi sem er nánast ósködduð af kórónuveirunni“ í gegn um ferðaskrifstofuna Discover The World. Þá er haft eftir Clive Stacey, stofnanda ferðaskrifstofunnar, að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að hnekkja kröfu flugfélagsins. Það hafi þó ekki gengið.

Farþegarnir áttu upprunalega að koma hingað til lands með Icelandair, en þegar félagið hafi fellt niður flugið hafi það komið þeim yfir til British Airways, eins og reglur gera ráð fyrir. Síðarnefnda flugfélagið hafi hins vegar krafið alla farþega um að framvísa neikvæðri niðurstöðu kórónuveiruprófs, sem þeir hafi þurft að afla sjálfir. Við komuna til Íslands eru það hins vegar niðurstöður skimunar á Keflavíkurflugvelli sem gilda.

„Staðreyndin er sú að Íslendingar taka ekki gild nein önnur próf en sín eigin og þau eiga að vera framkvæmd við komuna til Íslands. Veslings farþegar British Airways voru varaðir við því að þeim yrði meinað um borð í vélina ef þeir tækju ekki próf fyrir fram,“ hefur Independent eftir Stacey.

Þá segir að farþegarnir hafi sjálfir þurft að greiða fyrir prófin, bæði fyrir flugið til Íslands og við komuna. Þannig hafi farþegarnir þurft að greiða 150 pund fyrir próf fyrir brottför, eða um 26.000 krónur. Próf hér á landi kosta 9.000 krónur ef bókað er fyrir fram, en 11.000 krónur þegar bókað er á staðnum. Farþegarnir hafi því getað þurft að greiða allt að 37.000 krónur fyrir prófin.

Farþegar til Íslands ekki lengur prófaðir fyrir brottför

Þá ber Stacey landamæraskimun hér á landi söguna vel. Hann segir prófin ganga hratt fyrir sig og niðurstöður berist fljótt, eftir um fjóra til fimm klukkutíma.

„Þegar maður ferðast um Ísland veit fólk að maður hefur verið prófaður og það tekur spennuna úr aðstæðunum.“

Flugfélagið hefur nú beðist afsökunar á málinu og kveðst hætt að krefja farþega til Íslands um niðurstöður úr skimun fyrir kórónuveirunni.

„Við mælum með því að viðskiptavinir okkar kynni sér reglur á áfangastað áður en ferðast er,“ hefur Independent eftir talsmanni British Airways.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×