Erlent

Segir sam­starfs­mann sinn á þingi hafa kallað sig „hel­vítis tík“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Alexandria Ocasio-Cortez er einn þingmanna Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Alexandria Ocasio-Cortez er einn þingmanna Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Getty/Scott Eisen

Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez segir að samstarfsmaður hennar í deildinni, þingmaðurinn Ted Yoho hafi kallað hana „helvítis tík“ fyrr í þessari viku. Þetta kom fram í þingræðu. Fjölmiðlar höfðu áður fjallað um ummælu Yoho, en Ocasio-Cortez ítrekaði það í þinginu í dag eftir að Yoho sagði um misskilning að ræða.

Ocasio-Cortez segir atvikið hafa átt sér stað á tröppum þinghússins í Washington-borg. Hún hafi verið á leið upp tröppurnar og inn í þinghúsið þegar Yoho hafi nálgast hana, veifað fingrinum framan í hana og sagt hana ógeðslega. Hún hafi þá sagt hann dónalegan, gengið burt og hann kallað á eftir henni.

„Það voru fréttamenn fyrir framan þinghúsið. Fyrir framan téða fréttamenn kallaði þingmaðurinn Yoho mig, og ég vitna beint í hann: „Helvítis tík.““

Ted Yoho er einn þingmanna Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.Melina Mara/WP/Getty

Yoho baðst í gær afsökunar, en þó ekki á að hafa látið orðin falla. Hann baðst heldur afsökunar á þeim misskilningi sem ríkti um að hann hefði látið orðin falla.

„Hafandi verið giftur í 45 ár og eigandi tvær dætur er ég mjög meðvitaður um orðaval mitt. Móðgandi orð sem mér eru gerð upp voru aldrei látin falla í garð samstarfskonu minnar og ef þeim var tekið þannig, þá biðst ég afsökunar á misskilningnum sem þau hafa valdið. Ég get ekki beðist afsökunar á ástríðu minni, á því að elska Guð, fjölskyldu mína og landið mitt,“ sagði Yoho.

Þessi orð Yoho urðu tilefni til þess að Ocasio-Cortez vakti aftur máls á atvikinu. Hún sagði ummælin ekki hafa verið særandi, þar sem hún hefði kynnst svipaðri hegðun áður.

„Herra Yoho minntist á að hann ætti eiginkonu og tvær dætur. Ég er tveimur árum yngri en yngsta dóttir herra Yoho. Ég er dóttir einhvers líka. Að eiga eiginkonu gerir mann ekki að góðum manni, að koma fram við fólk af virðingu gerir mann að góðum manni,“ sagði Ocasio-Cortez í þingræðu sinni í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×