Fótbolti

Grunur um að Arnór og Hörður hafi smitast

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson gæti hafa smitast af kórónuveirunni.
Arnór Sigurðsson gæti hafa smitast af kórónuveirunni. VÍSIR/GETTY

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon verða ekki með CSKA Moskvu í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag vegna gruns um að þeir hafi smitast af kórónuveirunni.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá CSKA í dag en liðið tekur á móti Tambov í lokaumferðinni á eftir. Samkvæmt yfirlýsingunni vaknaði grunur um smit hjá íslensku landsliðsmönnunum við reglubundnar prófanir. Þeir hafa nú verið settir í einangrun og munu gangast undir frekar skoðun á næstunni.

Rússneska úrvalsdeildin var strax látin vita af stöðunni. Liðsfélagar Arnórs og Harðar voru teknir í annað próf en fleiri greindust ekki með veiruna.

Hörður Björgvin Magnússon í leik með CSKA.VÍSIR/GETTY

CSKA er í 4. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina í dag, með 47 stig, og gæti mögulega með sigri komist upp fyrir Krasnodar í 3. sæti, eða endað fyrir neðan Rostov í 5. sæti. Liðið í 3. sæti kemst í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en liðin í 4.-5. sæti þurfa að horfa til Evrópudeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×