Íslenski boltinn

Virðingar­leysi fyrir ís­lenskum knatt­spyrnu­dómurum? -„Þetta er gjör­sam­lega ó­líðandi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tvö atvik sem Pepsi Max stúkan tók til.
Tvö atvik sem Pepsi Max stúkan tók til. vísir/skjáskot

Pepsi Max stúkan tók þrjú málefni til umræðu í lok þáttarins og eitt þeirra var hvort að það væri algjört virðingarleysi fyrir íslenskum knattspyrnudómurum í samanburði við til að mynda íslenska körfuboltadómara.

Tekin voru nokkur dæmi úr íslenska boltanum í sumar þar sem leikmenn eru fljótir að myndast í kringum dómarann þegar hann er við að taka einhverja ákvörðun. Tómas Ingi Tómasson, sparkspekingur, er ekki hrifinn af þessu.

„Það er hrúgast að dómurunum. Fimm til átta leikmenn. Þetta er gjörsamlega ólíðandi,“ sagði Tómas Ingi áður en farið var yfir í myndir af íslenskum körfubolta.

„Þarna er ljótt brot og er einhver að fara í dómarann og kvarta? Hérna er borin virðing fyrir dómurunum. Mér finnst við þurfa bæta okkur í virðingardæmi hérna heima.“

Birtar voru svo gamlar myndir af Garðari Erni Hinrikssyni, fyrrum milliríkjadómara, sem raðspjaldaði menn ef þeir hlupu í áttina að honum og voru að tuða í honum.

„Þarna er leið til að breyta þessu. Ég veit ekki hvort við megum það en það er að spjalda hreinlega alla eins og Garðar gerði hérna á sínum tíma. Ef menn komu og voru endalaust röflandi í honum þá henti hann þeim út af.“

„Ég veit ekki hvort að þetta sé eitthvað sem maður geti gert hérna á Íslandi og ákveðið þetta. Þetta er vandamál úti um allan heim.“

„Mér fannst allt í lagi að koma inn á þetta. Mér finnst þetta ljóður á leiknum. Það er hægt að gera þetta betur,“ sagði Tómas Ingi að lokum.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Virðing fyrir dómurum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×