Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - Valur 4-0 | Íslandsmeistararnir kjöldregnir á Kópavogsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik sendi skýr skilaboð um að liðið ætli sér Íslandsmeistaratitilinn með stórsigrinum á Val.
Breiðablik sendi skýr skilaboð um að liðið ætli sér Íslandsmeistaratitilinn með stórsigrinum á Val. vísir/daníel

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði þrennu og Berglind Björg Þorvaldsdóttir eitt mark þegar Breiðablik vann 4-0 sigur á Íslandsmeisturum Vals í uppgjöri toppliða Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld. Þetta var fyrsta deildartap Vals síðan 17. september 2018.

Staðan var markalaus í hálfleik en Sveindís skoraði tvö mörk með tæplega mínútu millibili í upphafi seinni hálfleiks. Hún skoraði sitt þriðja mark á 77. mínútu og Berglind Björg negldi svo síðasta naglann í kistu Vals með fjórða markinu þremur mínútum fyrir leikslok. Agla María Albertsdóttir lagði upp þrjú af mörkum Blika í kvöld.

Breiðablik er enn í 2. sæti deildarinnar en nú aðeins stigi á eftir toppliði Vals. Blikar eiga auk þess tvo leiki til góða.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á 2. mínútu slapp Berglind Björg í gegnum vörn Valskvenna en Sandra Sigurðardóttir varði vel. Skömmu síðar varði Sandra aftur frá Sveindísi Jane.

Eftir þessa kröftugu byrjun Breiðabliks jafnaðist leikurinn. Heimakonur voru þó alltaf sterkari án þess þó að skapa sér opin færi. Staðan var markalaus í hálfleik.

Hafi fyrri hálfleikurinn byrjað fjörlega var það ekkert miðað við þann seinni. Á 46. mínútu sendi Agla María Albertsdóttir fyrir, boltinn barst á Sveindísi sem skoraði með vinstri fótar skoti.

Valur tók miðju og tapaði boltanum. Berglind Björg átti frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Vals á Sveindísi sem kláraði færið af yfirvegun.

Eftir þetta frábæru byrjun á seinni hálfleik missti Breiðablik tökin á leiknum og Valur sótti stíft. Gestirnir áttu fjölda tilrauna en var fyrirmunað að opna vörn heimakvenna. Sonný Lára Þráinsdóttir hafði nóg að gera en skotin voru flest viðráðanleg.

Eftir því sem sóknarþungi Vals jókst opnaðist líka meira pláss fyrir Breiðablik til að sækja í. Og það nýttu framherjar liðsins sér.

Á 77. mínútu stakk Agla María boltanum inn fyrir vörn Vals á Sveindísi. Sendingin og hlaupið fóru fullkomlega saman og Sveindís kláraði dæmið og skoraði sitt þriðja mark.

Blikar voru ekki hættir og tíu mínútum síðar skoraði Berglind Björg eftir þriðju stoðsendingu Öglu Maríu í leiknum. Þetta var sjöunda mark Berglindar Bjargar í sumar.

Lokatölur 4-0, Breiðabliki í vil eftir ótrúlegan seinni hálfleik. Blikar hafa unnið alla fimm deildarleiki sína í sumar með markatölunni 19-0. Valskonur hafa hins vegar aðeins fengið eitt stig í síðustu tveimur leikjum.

Berglind Björg skoraði eitt mark og lagði upp annað í leiknum í kvöld.vísir/daníel

Af hverju vann Breiðablik?

Þótt lokatölurnar gefi ekki alveg rétta mynd af leiknum átti Breiðablik sigurinn fyllilega skilið. Þær voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu svo forystunni með tveimur mörkum í upphafi þess seinni. Eftir það sótti Valur stíft en Breiðablik varðist vel. Skyndisóknir Blika voru svo baneitraðar eins og sást á lokakafla leiksins.

Hverjar stóðu upp úr?

Sveindís valdi rétta leikinn til að skora sína fyrstu þrennu í efstu deild. Keflvíkingurinn var ógnandi allan tímann og gerði frábærlega í færunum sínum. Agla María var sömuleiðis erfið viðureignar fyrir vörn Vals og lagði upp þrjú mörk. Berglind Björg átti einnig skínandi leik, skoraði eitt mark og lagði upp annað.

Sonný átti svo mjög góðan leik í marki Breiðabliks, var alltaf óaðfinnanlega staðsett og örugg í sínum aðgerðum. Hún hefur ekki enn fengið á sig mark í sumar. Kristín Dís Árnadóttir og Heiðdís Lillýjardóttir voru einnig traustar í miðri vörn Breiðabliks.

Hvað gekk illa?

Spil Vals var frekar stirt í fyrri hálfleik og í þeim seinni vantaði hugmyndaauðgi til að skapa sér opin færi. Elín Metta Jensen lét óvenju lítið fyrir sér fara í framlínunni og Ásdís Karen Halldórsdóttir gerði lítið þar fyrir aftan. Þá kom munurinn á hlaupagetu miðjumanna Breiðabliks og Vals bersýnilega í ljós í leiknum.

Bakverðir Vals, þær Málfríður Anna Eiríksdóttir og Hallbera Gísladóttir, áttu erfitt uppdráttar í leiknum í kvöld gegn eldfljótum kantmönnum Breiðabliks.

Hvað gerist næst?

Breiðablik á tvo leiki eftir í þessum mánuði, gegn Þrótti á heimavelli 24. júlí og Fylki á útivelli fimm dögum síðar. Næsti leikur Vals er gegn FH á heimavelli 29. júlí.

Sveindís Jane: Bara tímaspursmál hvenær mörkin kæmu

Sveindís Jane er komin með sex mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar.vísir/daníel

Sveindís Jane Jónsdóttir brosti breitt eftir leik Breiðabliks og Vals í kvöld. Og það var svo sannarlega tilefni til því hún skoraði þrennu í 4-0 sigri Blika.

„Þetta var geggjaður leikur hjá okkur og ég er ótrúleg ánægð með stelpurnar og frammistöðuna í dag,“ sagði Sveindís eftir leikinn á Kópavogsvelli.

Staðan var markalaus í hálfleik en Sveindís skoraði tvö mörk með mínútu millibili í upphafi seinni hálfleiks.

„Við vissum að við værum að fara að skora. Það var bara tímaspursmál hvenær mörkin kæmu. Það var frábært að byrja seinni hálfleikinn af krafti,“ sagði Sveindís.

„Mér fannst við miklu áræðnari en í fyrri hálfleik. Við sóttum á þær, gáfum ekkert eftir og vorum sterkari í baráttunni. Við gerðum þetta allt mjög vel.“

Sveindís valdi svo sannarlega rétta leikinn til að skora sína fyrstu þrennu í efstu deild; leik milli efstu liða Pepsi Max-deildarinnar og liðanna sem allir búast við að berjist um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var geggjað. Ég elska að spila á móti Val. Það er svo gaman að fá svona alvöru leiki og klára þá vel,“ sagði Sveindís.

Sem kunnugt er þurfti Breiðablik að fara í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Hún virðist ekki hafa sett liðið út af laginu, eiginlega þvert á móti. Blikar hafa unnið báða deildarleiki sína eftir sóttkvína með fjórum mörkum gegn engu og komu einnig áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Við vorum með æfingaáætlun og æfðum alla daga. Þetta voru öðruvísi æfingar en við héldum okkur í formi,“ sagði Sveindís að lokum.

Pétur: Blikarnir voru einfaldlega betri en við

Valskonurnar hans Péturs eru enn á toppi Pepsi Max-deildarinnar en aðeins stigi á undan Blikum sem eiga tvo leiki til góða.vísir/vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, viðurkenndi að sigur Breiðabliks hefði verið sanngjarn.

„Ég er bara svekktur með leikinn okkar. Blikarnir voru einfaldlega betri en við í dag,“ sagði Pétur eftir leikinn.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum en eftir tvær mínútur í þeim seinni var staðan orðin 2-0, Breiðabliki í vil.

„Þetta var smá skák í fyrri hálfleik en við fengum tvö mörk á okkur á fyrstu tveimur mínútunum í seinni hálfleik og þá þurftum við að bregðast við. Við tókum áhættu og vissum alveg að við gætum fengið fleiri mörk á okkur. En við þurftum að gera eitthvað,“ sagði Pétur.

Eftir þessa erfiðu byrjun á seinni hálfleik færðust Valskonur í aukana og sóttu stíft. Þeim gekk þó bölvanlega að opna Blikavörnina.

„Blikarnir eru með gott lið og við fengum bara hálffæri endalaust en engin almennileg færi. Svo vorum við opnar til baka en það skiptir ekki máli hvort þú tapir 1-0 eða 4-0,“ sagði Pétur að endingu.

Þorsteinn: Hættulegt að sækja mikið gegn okkur

Þorsteinn ásamt aðstoðarmanni sínum, Ólafi Péturssyni.vísir/bára

„Þetta var frábær leikur hjá okkur. Mér fannst við miklu betri allan leikinn. Þær lágu aðeins á okkur á kafla í seinni hálfleik en fótbolti snýst líka um að spila góða vörn og mér fannst við gera það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, eftir stórsigurinn á Val.

Blikar skoruðu tvö mörk í blábyrjun seinni hálfleiks og voru í bílstjórasætinu eftir það.

„Við náðum að opna þær. Við gerðum það aðeins í fyrri hálfleik líka en þarna galopnuðum við þær og kláruðum færin virkilega vel,“ sagði Þorsteinn.

Eftir að hafa komist í 2-0 beitti Breiðablik skyndisóknum sem skiluðu tveimur mörkum til viðbótar.

„Það sýndi sig í þessum leik að það er hættulegt að sækja mikið á móti okkur. Við nýttum þetta vel. Við vissum alveg að ef þær myndu pressa okkur mikið þyrftu þær að vera ansi skipulagðar til að verjast skyndisóknunum okkar,“ sagði Þorsteinn.

En sendi Breiðablik Val og öðrum liðum landsins skilaboð með þessum stórsigri í kvöld?

„Ég veit ekki hvað ég á að segja við þessari spurningu. Mér finnst við bara vera að spila vel og halda áfram þar sem frá var horfið,“ sagði Þorsteinn. 

„Auðvitað sendum við skilaboð að við ætlum okkur hluti en við fengum samt bara þrjú stig fyrir að skora fjögur mörk í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira