Erlent

Kanye West hélt ó­hefð­bundinn stuðnings­manna­fund

Sylvía Hall skrifar
Þrátt fyrir að hafa lýst yfir stuðningi við Donald Trump áður hefur Kanye West gefið það út að hann muni bjóða sig fram gegn honum í forsetakosningunum.
Þrátt fyrir að hafa lýst yfir stuðningi við Donald Trump áður hefur Kanye West gefið það út að hann muni bjóða sig fram gegn honum í forsetakosningunum. Vísir/Getty

Tónlistarmaðurinn Kanye West virðist hafa hafið kosningabaráttu sína í gær með óhefðbundnum stuðningsmannafundi í Charleston í Suður-Karólínu samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Fyrir um tveimur vikum tilkynnti hann á Twitter-síðu sinni að hann hygðist bjóða sig fram.

Margt er óljóst varðandi framboðið og fullyrti kosningaráðgjafi hans í síðustu viku að kosningabaráttunni væri lokið. Svo virðist ekki vera ef marka má lýsingar af fundinum í Charleston, þó ekkert virðist vera staðfest í þeim efnum.

Margir telja þó framboðið vera kynningarbrellu, enda hefur fresturinn til þess að bjóða sig fram runnið út í mörgum ríkjum og þarf hann að safna tilteknum fjölda undirskrifta til þess að eiga möguleika í öðrum. Þá hafa sumir aðdáendur lýst yfir áhyggjum af andlegri heilsu hans og telja hann á villigötum.

West segist bjóða sig fram sem fyrir sinn eigin flokk sem kallast „Birthday Party“ og myndi útleggjast á íslensku sem Afmælisflokkurinn, þó nafnið eigi líklegast að vera skírskotun í veislur. Á fundinum fór hann yfir ýmis stefnumál, meðal annars þungunarrof, sem hann segir eiga að vera löglegt þó hann sé ekki hlynntur því.

„Þungunarrof ætti að vera löglegt því vitið þið hvað? Lögin eru ekki gerð af guði hvort sem er, svo hvað er lögmætt?“ spurði West.

Hann er sagður hafa brotnað niður þegar hann fór að ræða málefnið og tilkynnt áhorfendum að foreldrar hans hefðu næstum því kosið að fara þá leið þegar þau áttu von á honum. Hefðu þau gert það „væri enginn Kanye West, því pabbi var of upptekin“.

Því næst ræddi hann fæðingu dóttur sinnar North West, sem er fyrsta barn hans með eiginkonu sinni Kim Kardashian, og sagðist sjálfur ekki talið sig tilbúinn til þess að eignast barn.

„Ég drap næstum dóttur mína… sama þótt eiginkona kona mín myndi skilja við mig eftir þessa ræðu, þá kom hún North í heiminn, meira segja þegar ég vildi það ekki.“


Tengdar fréttir

Mögulegt framboð Kanye ætti strax undir högg að sækja

Ólíklegt er að tónlistarmanninum Kanye West tækist að komast á kjörseðilinn í Bandaríkjunum í haust jafnvel þó að honum sé alvara með því að bjóða sig fram til forseta. Framboðsfrestur fyrir óháða frambjóðendur er þegar liðinn í nokkrum ríkjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×