Enski boltinn

Klopp: Get ekki verið neikvæður um eitthvað sem er svo jákvætt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp gat ekki leynt svekkelsi sínu eftir að Liverpool missti niður 1-0 forystu og tapaði á móti Arsenal í gær.
Jürgen Klopp gat ekki leynt svekkelsi sínu eftir að Liverpool missti niður 1-0 forystu og tapaði á móti Arsenal í gær. EPA-EFE/Shaun Botterill

Jürgen Klopp þurfti að horfa upp á það í gærkvöldi að mistök tveggja af traustustu leikmanna hans gáfu Arsenal sigur og um leið varð ljóst að Liverpool getur ekki lengur slegið stigametið í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool-liðið hefur nú misst af fjórum stigum í síðustu tveimur leikjum og getur fyrir vikið aðeins náð í 99 stig. Stigamet Manchester City frá 2017-18 er 100 stig.

Klopp sagði þó eftir leikinn að hann væri ekki vonsvikinn með það að Liverpool gæti ekki náð stigametinu í ár.

„Nei ekki hið minnsta. Ég vil bara ná í þau stig sem við getum náð í og við sjáum síðan bara hver sá stigafjöldi verður í lok tímabilsins,“ sagði Jürgen Klopp.

„Ég get ekki verið neikvæður um eitthvað sem er svo jákvætt. Við erum meistarar og náðum því svona snemma á tímabilinu. Við erum komnir með 93 stig. Ég er ekki maðurinn sem býr til einhverja neikvæðni úr því að við getum ekki lengur náð í hundrað og eitthvað stig,“ sagði Klopp.

„Þessir strákar átti einstakt tímabil og það getur enginn tekið það frá þeim. Við fáum þau stig sem við eigum skilið og þurfum bara að bíða og sjá hversu mörg þau verða,“ sagði Klopp.

„Ég er auðvitað vonsvikinn og reiður með nokkra hluti en leikurinn var góður hjá okkur og hugarfarið var flott. Við tókum okkur pásu eftir að við komust yfir og þess vegna töpuðum við leiknum. Þannig er fótboltinn. Einhverjir eru hissa á því að þessir strákar séu mannlegir en ekki ég. Það kemur fyrir að þeir eru ekki fullkomnir,“ sagði Jürgen Klopp.

Liverpool á eftir tvo leiki sem eru á móti Chelsea á heimavelli 22. júlí og Newcastle United á útivelli 26. júlí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.