Erlent

Ríkisstjóri Oklahoma smitaður af veirunni

Andri Eysteinsson skrifar
Stitt er á sínu fyrsta kjörtímabili sem ríkisstjóri.
Stitt er á sínu fyrsta kjörtímabili sem ríkisstjóri. AP/Sue Ogrocki

Ríkisstjóri Oklahoma hefur tilkynnt að hann hafi greinst með kórónuveirusmit fyrstur ríkisstjóra Bandaríkjanna.

Hinn 48 ára gamli Kevin Stitt greindi frá greiningunni á rafrænum blaðamannafundi þar sem hann sagðist vera í einangrun á heimili sínu eftir greiningu. Stitt sagði að líðan sín væri að mestu góðu þó að hann hafi fundið fyrir verkjum á þriðjudag og fór þá í skimun.

Eiginkona Stitt og börn fóru einnig í skimun og reyndust þau laus við smit.

Sóttvarnartakmörkunum var aflétt hratt í Oklahoma og hefur Stitt hafnað því að gera andlitsgrímur að skyldu í ríkinu.

„Við virðum rétt fólks til þess að klæðast ekki grímu. Fjöldi fyrirtækja krefst þess að fólk gangi með grímu og það er í fínu lagi. Ég er bara hikandi við það að krefjast einhvers sem vandasamt er að framfylgja,“ sagði Stitt á fundinum.

Stitt var á meðal þeirra sem sóttu umdeildan fjöldafund Donald Trump í borginni Tusla í Oklahoma í síðasta mánuði. AP greinir frá því að þó að fundurinn sé talinn hafa stuðlað að fjölgun smitaðra í Tulsa hafi Stitt ekki smitast af veirunni þar.

Smitrakning er hafin vegna smits ríkisstjórans en síðustu daga hefur metfjöldi verið greindur með kórónuveirusmit í ríkinu. 993 á þriðjudag og í dag hafa 1.075 tilfelli greinst. Alls hafa yfir 22.000 greinst með veiruna í ríkinu og 432 hafa látist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.