Erlent

Ríkisstjóri Oklahoma smitaður af veirunni

Andri Eysteinsson skrifar
Stitt er á sínu fyrsta kjörtímabili sem ríkisstjóri.
Stitt er á sínu fyrsta kjörtímabili sem ríkisstjóri. AP/Sue Ogrocki

Ríkisstjóri Oklahoma hefur tilkynnt að hann hafi greinst með kórónuveirusmit fyrstur ríkisstjóra Bandaríkjanna.

Hinn 48 ára gamli Kevin Stitt greindi frá greiningunni á rafrænum blaðamannafundi þar sem hann sagðist vera í einangrun á heimili sínu eftir greiningu. Stitt sagði að líðan sín væri að mestu góðu þó að hann hafi fundið fyrir verkjum á þriðjudag og fór þá í skimun.

Eiginkona Stitt og börn fóru einnig í skimun og reyndust þau laus við smit.

Sóttvarnartakmörkunum var aflétt hratt í Oklahoma og hefur Stitt hafnað því að gera andlitsgrímur að skyldu í ríkinu.

„Við virðum rétt fólks til þess að klæðast ekki grímu. Fjöldi fyrirtækja krefst þess að fólk gangi með grímu og það er í fínu lagi. Ég er bara hikandi við það að krefjast einhvers sem vandasamt er að framfylgja,“ sagði Stitt á fundinum.

Stitt var á meðal þeirra sem sóttu umdeildan fjöldafund Donald Trump í borginni Tusla í Oklahoma í síðasta mánuði. AP greinir frá því að þó að fundurinn sé talinn hafa stuðlað að fjölgun smitaðra í Tulsa hafi Stitt ekki smitast af veirunni þar.

Smitrakning er hafin vegna smits ríkisstjórans en síðustu daga hefur metfjöldi verið greindur með kórónuveirusmit í ríkinu. 993 á þriðjudag og í dag hafa 1.075 tilfelli greinst. Alls hafa yfir 22.000 greinst með veiruna í ríkinu og 432 hafa látist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×