Erlent

Þúsundir þorpa á floti í mannskæðum monsúnflóðum á Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona situr á bát við hús sitt sem er á floti vegna flóðanna í Chandrapur í Kamrup-héraði í Assam.
Kona situr á bát við hús sitt sem er á floti vegna flóðanna í Chandrapur í Kamrup-héraði í Assam. Vísir/EPA

Að minnsta kosti fimmtíu manns eru látnir og fleiri en tvær milljónir manna hafa orðið fyrir áhrifum af miklum monsúnflóðum í Assam-ríki á norðaustanverðu Indlandi. Þúsundir þorpa eru á floti og auka hamfarirnar enn á erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.

Hátt í fimm hundruð neyðarskýli hafa verið sett upp í tuttugu héruðum fyrir fleiri en 60.000 manns. Monsúnrigningar eru árlegur viðburður í Assam en þeim fylgja flóð og aurskriður sem neyða íbúa til að flýja heimili sín. Í fyrra lentu milljónir manna á vergangi vegna mikilla flóða á Indlandi, í Nepal og Bangladess. Þá fórust hátt í hundrað manns í Assam og nágrannaríkinu Bihar.

Flóðin nú hafa einnig valdið usla í Karizanga-þjóðgarðinum sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Embættismenn telja að í það minnsta 51 dýr hafi drepist en starfsmenn garðsins náð að bjarga 102. Meirihluti indverskra nashyrninga í heiminum búa í garðinum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Monsúnrigningar eru fylgifiskar árstíðarbundinna breytinga á vindafari yfir norðanverðu Indlandshafi. Suðvestanvindar bara heitt og rakt loft yfir Indlandsskaga sem veldur úrhellisúrkomu. Úrkoman nær hámarki í lok sumarmonsúntímans, í október og nóvember, að því er segir í grein á Vísindavefnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.