Enski boltinn

Hvaða lið fylgja Liverpool og Man. City í Meistaradeildina?

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United stendur vel að vígi í baráttunni um Meistaradeildarsæti eftir fjóra sigra í röð.
Manchester United stendur vel að vígi í baráttunni um Meistaradeildarsæti eftir fjóra sigra í röð. VÍSIR/GETTY

Nú þegar ljóst er að Manchester City fær að leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er útlit fyrir harða baráttu Chelsea, Leicester og Manchester United um tvö laus sæti í keppninni.

Liverpool og Manchester City hafa þegar tryggt sér tvö efstu sæti ensku úrvalsdeildarinnar og fara því í Meistaradeildina á næstu leiktíð. City var í febrúar úrskurðað í tveggja ára bann frá keppninni, vegna meintra brota á reglum um fjárhagslega háttvísi, en alþjóða íþróttadómstóllinn ógilti í dag þann úrskurð.

Því standa eftir tvö laus sæti í Meistaradeildinni, fyrir liðin í ensku úrvalsdeildinni. England fær fjögur sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, og þarf ekkert liðanna að fara í forkeppni.

Chelsea er í 3. sæti með 60 stig, Leicester er með 59, Man. Utd 58, Wolves 55 og Sheffield United 54. Tottenham er í 8. sæti með 52 stig og á ekki raunhæfa möguleika á Meistaradeildarsæti nú þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

Man. Utd á leik til góða á önnur lið en liðið mætir Southampton í kvöld og getur því komist upp í 3. sæti með sigri. Jafntefli dugar liðinu ekki til að fara upp í 4. sæti þar sem Leicester er með þremur mörkum betri markatölu. United og Leicester mætast í lokaumferðinni í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um hvort liðanna fær dýrmætt Meistaradeildarsæti, en hér að neðan má sjá leikina sem liðin eiga eftir.

Chelsea (60 stig): Norwich (h), Liverpool (ú), Wolves (h).

Leicester (59 stig): Sheffield United (h), Tottenham (ú), Man. Utd (h).

Man. Utd (58 stig): Southampton (h), Crystal Palace (ú), West Ham (h), Leicester (ú).

Wolves (55 stig): Burnley (ú), Crystal Palace (h), Chelsea (ú).

Sheff. Utd (54 stig): Leicester (ú), Everton (h), Southampton (ú).


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.