Enski boltinn

Hvaða lið fylgja Liverpool og Man. City í Meistaradeildina?

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United stendur vel að vígi í baráttunni um Meistaradeildarsæti eftir fjóra sigra í röð.
Manchester United stendur vel að vígi í baráttunni um Meistaradeildarsæti eftir fjóra sigra í röð. VÍSIR/GETTY

Nú þegar ljóst er að Manchester City fær að leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er útlit fyrir harða baráttu Chelsea, Leicester og Manchester United um tvö laus sæti í keppninni.

Liverpool og Manchester City hafa þegar tryggt sér tvö efstu sæti ensku úrvalsdeildarinnar og fara því í Meistaradeildina á næstu leiktíð. City var í febrúar úrskurðað í tveggja ára bann frá keppninni, vegna meintra brota á reglum um fjárhagslega háttvísi, en alþjóða íþróttadómstóllinn ógilti í dag þann úrskurð.

Því standa eftir tvö laus sæti í Meistaradeildinni, fyrir liðin í ensku úrvalsdeildinni. England fær fjögur sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, og þarf ekkert liðanna að fara í forkeppni.

Chelsea er í 3. sæti með 60 stig, Leicester er með 59, Man. Utd 58, Wolves 55 og Sheffield United 54. Tottenham er í 8. sæti með 52 stig og á ekki raunhæfa möguleika á Meistaradeildarsæti nú þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

Man. Utd á leik til góða á önnur lið en liðið mætir Southampton í kvöld og getur því komist upp í 3. sæti með sigri. Jafntefli dugar liðinu ekki til að fara upp í 4. sæti þar sem Leicester er með þremur mörkum betri markatölu. United og Leicester mætast í lokaumferðinni í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um hvort liðanna fær dýrmætt Meistaradeildarsæti, en hér að neðan má sjá leikina sem liðin eiga eftir.

Chelsea (60 stig): Norwich (h), Liverpool (ú), Wolves (h).

Leicester (59 stig): Sheffield United (h), Tottenham (ú), Man. Utd (h).

Man. Utd (58 stig): Southampton (h), Crystal Palace (ú), West Ham (h), Leicester (ú).

Wolves (55 stig): Burnley (ú), Crystal Palace (h), Chelsea (ú).

Sheff. Utd (54 stig): Leicester (ú), Everton (h), Southampton (ú).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×