Enski boltinn

Manchester City missir ekki sæti sitt í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling og félagar í Manchester City geta fagnað í dag eftir úrskurðinn hjá CAS.
Raheem Sterling og félagar í Manchester City geta fagnað í dag eftir úrskurðinn hjá CAS. EPA-EFE/Laurence Griffiths

Alþjóða íþróttadómstóllinn (Court of Arbitration for Sport) tilkynnti í dag úrskurð sinn í máli Manchester City en enska félagið hafði verið dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni ó vetur.

Alþjóða íþróttadómstóllinn ákvað það að City missi ekki keppnisrétt sinn í Evrópukeppnum vegna brota sinna á rekstrarreglum UEFA.

Manchester City fagnar örugglega niðurstöðunni en félagið sleppur við bannið og þá er sekt félagsins minnkuð um tuttugu milljónir evra.

Framtíð félagsins var í húfi enda átti Manchester City á hættu að missa sína bestu menn ef liðið spilaði ekki í Meistaradeildinni í tvö ár.

Alþjóða íþróttadómstóllinn taldi að það væri ekki nægar sannanir fyrir brotum Manchester City og þá var of langt liðum frá sumum brotunum til að geta refsað fyrir þau samkvæmt reglum UEFA.

Mánudagurinn 13. júli er því sigurdagur fyrir Manchester City.

Knattspyrnusamband Evrópu hafði dæmt Manchester City í tveggja ára bann frá Evrópukeppnunum í febrúar og auk þess átti City að greiða 30 milljónir evra, 4,8 milljarða íslenskra króna, í sekt.

Manchester City hafði að mati dómstóls UEFA brotið gegn reglum um rekstur fótboltafélaga með því að fela umfram útgjöld félagsins í ársreikningi. City var sakfellt fyrir það að láta líta þannig út að félagið væri að fá meiri pening inn frá styrktaraðilum tengdum eigenda félagsins Sjeik Mansour.

Sjeik Mansour eignaðist Manchester City fyrir tólf árum síðan og breytti algjörlega örlögum félagsins með því að dæla inn í það peningum. City hefur á tíma hans unnið fjóra Englandsmeistaratitla og alls ellefu titla samanlagt. Eini stóri titilinn sem vantar er sjálf Meistaradeildin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×