Íslenski boltinn

Endaði ferillinn á þrennu og byrjaði aftur með þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson með boltann í leik á móti FH á síðasta tímabili sínu í efstu deild sumarið 2018.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson með boltann í leik á móti FH á síðasta tímabili sínu í efstu deild sumarið 2018. Vísir

Gunnar Heiðar Þorvaldsson er einn mesti markaskorari í sögu Vestmannaeyja og á að baki flottan feril bæði á Íslandi sem og úti í atvinnumennsku.

Flestir héldu nú að ferill Gunnars Heiðars Þorvaldssonar væri á enda en hann ákvað að taka skóna ofan hillunni eftir tæplega tuttugu og tveggja mánaða hvíld frá opinberum fótbolta.

Gunnar Heiðar varð 38 ára gamall í apríl síðastliðnum en hann sýndi gamla takta í leik með Knattspyrnufélaginu Framherjum-Smástund á Týsvellinum á laugardaginn. Hann er þjálfari liðsins og ákvað að setja sjálfan sig í byrjunarliðið að þessu sinni.

Gunnar Heiðar skoraði þrjú af fjórum fyrstu mörkum leiksins þegar Knattspyrnufélagið Framherjar-Smástund vann 8-0 á Létti. Gunnar Heiðar fór af velli á 53. mínútu leiksins en Léttismenn voru manni færri frá 20. mínútu. Það má sjá leikskýrsluna hér.

Þó að þetta hafi verið fyrsti leikur Gunnars Heiðars með liðinu í sumar þá var þetta fimmti leik KFS liðsins sem er með 12 stig á toppi A-riðils í 4. deildinni.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson lagði skóna á hilluna eftir 2018 tímabilið með ÍBV en hann náði þá að skora þrennu í síðasta leiknum sínum sem var á móti Grindavík í lokaumferðinni. Gunnar Heiðar „endaði“ ferillinn því á þrennu og byrjaði hann svo aftur á ný með því að skora þrennu.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði 61 mark í 127 leikjum fyrir ÍBV í efstu deild en hann er þriðji markahæsti leikmaður ÍBV frá upphafi í efstu deild á eftir þeim Tryggva Guðmundssyni og Steingrími Jóhannessyni.

Gunnar Heiðar skoraði einnig 63 deildarmörk í atvinnumennsku erlendis frá 2005 til 2015 en hann varð markahæstur í sænsku deildinni á sínum tíma með liði Halmstads BK.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.