Fótbolti

Goðsögnin Jack Charlton látinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jack Charlton á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu.
Jack Charlton á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu. Ray McManus/Getty Images

Jack Charlton - einn af lykilmönnum Englands er liðið varð heimsmeistari árið 1966 - lést í gær, 85 að aldri.

Jack lék á sínum tíma 35 leiki fyrir enska landsliðið og skoraði í þeim sex mörk. Var hann algjör lykilmaður er liðið landaði sínum eina heimsmeistaratitli ásamt bróðir sínum Sir Bobby Charlton. Jack myndaði eitt besta miðvarðarpar í sögu Englands með Bobby Moore.

England vann Vestur-Þýskaland 4-2 í úrslitum HM 1966 framlengdum leik. Þó Jack hafi mögulega ekki náð sömu hæðum og bróðir sinn Bobby þá er hann samt sem áður goðsögn í enskri knattspyrnu. 

Á meðan Bobby lék nær allan sinn feril með Manchester United þá lék Jack með erkifjendum þeirra í Leeds United. Alls lék Jack 773 leiki fyrir Leeds á þeim 23 árum sem hann var hjá félaginu. Varð hann bæði Englands- og bikarmeistari með liðinu.

Eftir að skórnir fóru á hilluna gerðist Jack þjálfari og stýrði meðal annars Middlesborough, Sheffield Wednesday og Newcastle United ásamt írska landsliðinu frá 1986 til 1996. Fór hann með írska liðið á tvö heimsmeistaramót og eitt Evrópumót.

Charlton greindist með krabbamein á síðasta ári en hann hafði einnig barist við Alzheimer-sjúkdóminn um þónokkuð skeið. Hann lést svo í gær. Jack var á sínum tíma sæmdur OBE-orðu breska konungsveldisins.

Öll lið ensku úrvalsdeildarinnar vottuðu Jack virðingu sína með mínútu þögn fyrir leiki dagsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.