Erlent

Ástralir segja upp framsalssamningi vegna öryggislaga í Hong Kong

Andri Eysteinsson skrifar
Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu. Vísir/AP

Áströlsk yfirvöld hafa gripið til aðgerða vegna nýrra öryggislaga í Hong Kong. Framsalssamningi milli Ástralíu og borgarinnar hefur verið rift og landvistarleyfi borgara frá Hong Kong í Ástralíu hefur verið framlengt.

Umdeild öryggislög tóku gildi um mánaðamótin í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong en með þeim var gert refsivert að grafa undan yfirráðum kínverskra stjórnvalda. Lögunum er ætlað að vera svar við mótmælahrinu íbúa Hong Kong í fyrra sem beindust gegn annarri umdeildri löggjöf.

Með lögunum verður hvers kyns niðurrifsstarfsemi og leynimakk með erlendum öflum gert refsivert. Nú þegar hafa verið gerðar handtökur á grundvelli laganna sem hafa verið harðlega gagnrýnd um heim allan. Nú hefur ríkisstjórn Ástralíu brugðist við þeim og segir aðstæður hafa gjörbreyst í sjálfstjórnarhéraðinu. AP greinir frá.

„Ríkisstjórn okkar hefur, ásamt fleiri ríkisstjórnum, ítrekað lýst yfir áhyggjum yfir setningu öryggislaga í Hong Kong. Með lögunum hafa aðstæður í ríkinu gjörbreyst og sérstaklega í tilliti til framsalssamnings á milli ríkjanna,“ sagði Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.

Kínversk stjórnvöld hafa þegar brugðist ókvæða við og í yfirlýsingu frá kínverska sendiráðinu í Canberra eru áströlsk stjórnvöld sökuð um að hafa brotið gegn alþjóðalögum með gjörðum sínum.

„Við hvetjum Ástrali til þess að hætta að skipta sér af málefnum Hong Kong og Kína,“ sagði í yfirlýsingu sendiráðsins.

Kanada hefur einnig tekið ákvörðun um uppsögn framsals sakamanna og Bretar hafa einnig ákveðið að auka við möguleika borgara Hong Kong til að flytjast búferlum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.