Íslenski boltinn

Vísa ummælum KA-manna á bug

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá vellinum um helgina.
Frá vellinum um helgina. mynd/skjáskot

KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir vísa ummælum KA-manna um skrýtna úthlutun úr mannavirkjasjóði til föðurhúsanna.

Mikið hefur verið rætt og ritað um Akureyrarvöll síðustu daga en völlurinn leit vægast sagt illa út er KA og Breiðablik mættust í Pepsi Max-deild karla um helgina.

Eftir leikinn sagði m.a. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, að undirlagið væri eitt það daprasta í efstu deild í Evrópu og það fékk Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, til að rita pistil.

Hann sagði að KA-menn væru heldur ekki sáttir við stöðuna og stakk aðeins á úthlutun úr mannvirkjasjóði KSÍ.

„Önnur en skrýtnari staðreynd er sú að KA sótti um í mannvirkjasjóð KSÍ, þar sem óskað var eftir nokkrum milljónum til þess að vinna í Greifavellinum. Meðal verka var að drena svæði þar sem vitað er að drenlagnir vallarins eru ónýtar. Stjórn KSÍ telur mikilvægara að setja pening í vallarklukkur í Kópavogi, inni battavöll í Kórnum, sæti á Hlíðarenda, búningsklefa á Hlíðarenda og Eyjum, sparkvöll á KR svæðinu, varamannaskýli í Árbæinn og Kópavog og vökvunarbúnað inni í Kór svo einhver dæmi séu tekin. Engar upplýsingar fást frá KSÍ vegna þess, en ef úthlutun úr mannvirkjasjóði eru skoðar þá vakna margar spurningar um úthlutunina úr þessum ágæta sjóði.“

Knattspyrnusambandið var ekki lengi að svara fyrir sig og sendu þeir frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir vísa þessu til föðurhúsanna, þar sem í umsókn KA stóð að ráðast ætti í verkefnið eftir tímabilið.

„KA sótti um í mannvirkjasjóð KSÍ 2020 fyrir verkefni sem átti að ráðast í að loknu keppnistímabilinu 2020 og vera lokið fyrir keppnistímabilið 2021 (drenlögn á Akureyrarvöll). Ljóst er að afgreiðsla mannvirkjanefndar og stjórnar KSÍ á umsókninni ræður ekki úrslitum um ástand leikflatarins á Akureyrarvelli keppnistímabilið 2020.“

Yfirlýsingu KSÍ má sjá í heild sinni hér.

Uppfært 14.18: KSÍ hefur leiðrétt frétt á vef sínum en í nýrri tilkynningu KSÍ segir að KA sótti s.s. um í mannvirkjasjóð KSÍ 2020 fyrir verkefni sem átti að ráðast í og ljúka á keppnistímabilinu 2020 (drenlögn á Akureyrarvöll).
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.