Enski boltinn

Fær ekki að mæta á æfingar eftir vand­ræðin gegn Brig­hton

Anton Ingi Leifsson skrifar
Matteo Guendouzi í vandræðunum gegn Brighton.
Matteo Guendouzi í vandræðunum gegn Brighton. vísir/getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, lofaði því að taka til hendinni er hann mætti til Arsenal og ekki að gefa neitt eftir. Matteo Guendouzi hefur fengið að finna fyrir því.

Guendouzi lenti í miklum vandræðum í 2-1 tapinu gegn Brighton í síðasta mánuði en hann lenti í handalögmálum við Neal Mupay. Hann slapp við bann frá enska knattspyrnusambandinu en ekki frá Arteta sjálfum.

Arteta hefur ekki valið hann í leikmannahópinn einu sinni eftir atvikið og The Athletic greinir frá því að honum hefur ekki einu sinni verið leyft að æfa með aðalliðinu eftir leikinn.

Hann hefur æft með styrktarþjálfara eftir að hafa valdið vonbrigðum á fundi með Arteta og yfirmanni knattspyrnumála, Edu. Hann er nú sagður á förum í sumar, annað hvort verður hann seldur eða verður hlutu af öðrum samningi.

Arteta hefur verið harður og leikmenn eins og Mesut Özil hafa heldur ekki komist í leikmannahópinn hjá liðinu á meðan hinn átján ára Bukayo Saka hefur slegið í gegn.

Arsenal mætir Leicester í dag og getur með sigri skotist upp í sjötta sæti deildarinnar og verið í seilingarfjarlægð frá Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×