Erlent

Mögulegt framboð Kanye ætti strax undir högg að sækja

Kjartan Kjartansson skrifar
West með derhúfu með slagorði Trump forseta þegar hann heimsótti Hvíta húsið árið 2018. Þar fór West mikinn.
West með derhúfu með slagorði Trump forseta þegar hann heimsótti Hvíta húsið árið 2018. Þar fór West mikinn. Vísir/Getty

Ólíklegt er að tónlistarmanninum Kanye West tækist að komast á kjörseðilinn í Bandaríkjunum í haust jafnvel þó að honum sé alvara með því að bjóða sig fram til forseta. Framboðsfrestur fyrir óháða frambjóðendur er þegar liðinn í nokkrum ríkjum.

West tilkynnti skyndilega og óvænt að hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta á Twitter-síðu sinni í gær. Ekki liggur fyrir hvort að hann hafi skilað inn gögnum til að komast á kjörseðilinn í haust og þá er ekki ljóst hvort alvara býr að baki fullyrðingu hans. West hefur glímt við geðræn vandamál undanfarin ár og hefur áður sagst ætla í framboð án þess að standa við það.

Reuters-fréttastofan segir að ætlaði West sér í framboð þyrfti hann annað hvort að afla sér stuðnings eins af litlu stjórnmálaflokkunum í Bandaríkjunum eða bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi. Frestur til að skila inn óháðu framboði er þegar liðinn í nokkrum ríkjum, þar á meðal í Nýju-Mexíkó og Norður-Karólínu.

Til þess að West gæti boðið sig fram sem óháður frambjóðandi þyrfti hann ennfremur að ráða starfslið eða fá sjálfboðaliða til að safna tugum þúsunda undirskrifta um allt landið á skömmum tíma áður en framboðsfrestur rennur út í fleiri ríkjum í ágúst og september. Hugsanlega gæti West beðið aðdáendur sína um að skrifa nafn sitt á kjörseðilinn í kosningunum í haust.

Larry Sabato, forstöðumaður stjórnmálamiðstöðvar Virginíuháskóla, segir Reuters að jafnvel þó að West kæmist á kjörseðilinn tæki hann líklega ekki meira en nokkur prósentustig af greiddum atkvæðum. Líklega tæki hann svipað mikið fylgi af Donald Trump forseta og Joe Biden, sem nær örugglega verður frambjóðandi demókrata.

West hefur áður lýst aðdáun og stuðningi við Trump forseta. Heimsótti hann meðal annars Hvíta húsið og fór með furðulega ræðu í október árið 2018. Skömmu síðar sagðist hann ætla að halda sig frá stjórnmálum þar sem hann teldi sig hafa verið notaðan til að breiða út boðskap sem hann tryði ekki á.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.