Erlent

Frekari lokanir á norðanverðum Spáni vegna faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá borginni Lugo í Galisíu þar sem nýjum smitum hefur fjölgað undanfarið. Tímabundnu útgöngubanni hefur verið komið á vegna þess.
Frá borginni Lugo í Galisíu þar sem nýjum smitum hefur fjölgað undanfarið. Tímabundnu útgöngubanni hefur verið komið á vegna þess. Vísir/Getty

Yfirvöld í Galisíu á Norðvestur-Spáni hafi komið aftur á takmörkunum til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á svæði þar sem um 70.000 manns búa vegna þess að smitum hefur farið fjölgandi þar. Útgöngubann tók aftur gildi í hluta Katalóníu af sömu ástæðu í gær.

Aðeins þeir sem þurfa að komast til og frá vinnu fá að yfirgefa A Marina-hérað frá miðnætti í kvöld fram á föstudag. Samkomur fleiri en tíu manns verða bannaðar og skylda verður að ganga með grímur utandyra.

Heilbrigðisyfirvöld rekja hópsýkingu á svæðinu til öldurhúsa og verður þeim og veitingastöðum nú aðeins leyft að taka við helmingi þeirra viðskiptavina sem þeir hafa almennt leyfi til að hýsa. Alls hafa 258 greinst smitaðir af nýju afbrigði kórónuveiru í Galisíu, þar af 117 í og við Lugo-héraði þar sem A Marina er, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Líkt og í Segria-sýslu í Katalóníu þar sem aftur hefur verið gripið til takmarkana vegna faraldursins eftir fjölgun smita verður íbúum A Marina leyft að ferðast óhindrað innan sóttvarnasvæðisins.

Böndum hefur að mestu verið komið á faraldurinn á Spáni sem hefur lent einna verst úti til þessa. Fleiri en 250.000 manns hafa greinst smitaðir og rúmlega 28.000 manns látið lífið. Byrjað er að slaka á hömlum sem komið var á vegna veirunnar, þar á meðal opna landamæri Spánar fyrir íbúum annarra Evrópuríkja.


Tengdar fréttir

Útgöngubanni komið á í hluta Katalóníu vegna uppgangs veirunnar

Yfirvöld hafa hert aftur á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í hluta Katalóníu eftir að nýjum smitum fjölgaði á nýjan leik. Íbúum svæðisins er bannað að yfirgefa það en þurfa ekki að halda sig heima eins og í upphaflega útgöngubanninu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.