Innlent

Raf­væðingin að bresta á en kostnaðar­samt ef tengja á stóru skemmti­ferða­skipin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það þarf svera kapla til að rafvæða höfnina.
Það þarf svera kapla til að rafvæða höfnina. Vísir/Tryggvi Páll

Framkvæmdir við rafvæðingu Tangabryggju á Akureyri eru vel á veg komnar. Þar verður hægt að tengja minni skemmtiferðaskip við rafmagn. Það mun þó kosta mikla fjármuni ef tengja á stærri skemmtiferðaskip við rafmagn.

Akureyrarbær tók nýverið við 44 milljóna króna styrk til rafvæðingu hafna á Akureyri. Hann verður nýttur til þess að rafvæða Tangabryggju, þar sem ákveðin stærð af skipum mun geta tengst rafmagni.

„Þá erum við að tala um allra minnstu skemmtiferðaskipin og síðar fraktskip, jafnvel varðskip og rannsóknarskip,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri.

Hann er ánægður með framlagið frá ríkinu, en um mjög kostnaðarsama framkvæmd er að ræða.

„Bara til þess að ná minnstu skipunum, minni skemmtiferðaskipum og fraktskipum þá er kostnaðurinn í kringum hálfan milljarð, 500-600 milljónir en þetta er verulega gott start í þetta verkefni og kemur að góðum notum,“ segir Pétur.

Rafvæðing hafna hefur verið tengd við umhverfisvernd, þannig að stór skip geti tengst umhverfisvænni orku, í stað þess að brenna jarðefnaeldsneyti, þegar þau liggja í höfn.

Frá AkureyriVísir/Tryggvi Páll

Þessi umræða hefur verið hávær á Akureyri, þar sem fjöldi stórra skemmtiferðaskipa leggst við Oddeyrarbryggju á sumri hverju, í grennd við þá bryggju sem nú er verið að rafvæða.

Er raunhæft að ætla að tengja þau við rafmagn?

„Ég held að menn verði allavega að fylgjast með og sjá hvernig þróunin verður í heiminum. Að koma köplum á þetta svæði hérna, við erum að tala um 1,3-1,5 milljarða sem eru gríðarlegir fjármunir og tímabilið á Íslandi varðandi stór skemmtiferðaskip er mjög stutt, þrír til fjórir mánuðir þannig að það orkar tvímælis hvort að þetta sé hagkvæmt.“

Finnið þið fyrir að það sé kallað eftir þessu að viðskiptavinum ykkar?

„Menn eru farnir að senda fyrirspurnir, hvort að þetta sé til staðar, það er að aukast.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.