Erlent

„At­vik“ í úranauðgunar­stöð í Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Úranauðgunarstöðin í Natanz í Íran. Myndin er úr safni.
Úranauðgunarstöðin í Natanz í Íran. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Kjarnorkustofnun Írans segir að „atvik“ hafi átt sér stað í Natanz-úranauðgunarstöðinni en að enginn mannskaði hafi orðið og að ekki sé hætta á mengun. Slökkviliðs- og björgunarmenn voru sendir í stöðina.

Natanz-stöðin er um 250 kílómetra suður af höfuðborginni Teheran. Ramazanali Ferdowsi, ríkisstjóri þar, segir að eldur hafi komið upp í henni. Talsmaður kjarnorkustofnunarinnar gaf ekki frekari upplýsingar um atvikið en fullyrti að það hefði átt sér stað í byggingu sem var í smíðum og að ekki væri hætti á ferðum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Á myndum sem stofnunin birti sáust skemmdir á þaki og sviðnir veggir byggingar þar sem hún segir að uppákoman hafi átt sér stað.

Alþjóðakjarnorkustofnunin (IAEA) segist vita af uppákomunni en býst ekki við að hún hafi áhrif á störf sín. Stofnunin fylgist með því hvort að írönsk stjórnvöld virði ákvæði kjarnorkusamnings heimsveldanna sem var gerður árið 2015. Samningurinn setur mörk við hversu mikið Íranir geta auðgað úran til að koma í veg fyrir að þeir geti framleitt kjarnavopn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.