Erlent

Herða aðgerðir gegn Kína vegna nýju laganna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan í Hong Kong sést hér beita vatni gegn blaðamönnum sem fylgdist með aðgerðum hennar í borginni í gær.
Lögreglan í Hong Kong sést hér beita vatni gegn blaðamönnum sem fylgdist með aðgerðum hennar í borginni í gær. Ap/Kin Cheung

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt einróma að leggja viðskiptaþvinganir á banka sem stunda viðskipti við kínverska embættismenn. Þvinganirnar eru tilkomnar vegna nýrra öryggislega kínverskra yfirvalda, en áður höfðu bandarísk stjórnvöld afnumið sérstaka stöðu Hong Kong fyrir bandarískum lögum.

Samkvæmt hinum umdeildu öryggislögum sem tóku gildi í gær er refsivert að grafa undan yfirráðum kínverskra stjórnvalda í sjálfsstjórnarhéraðinu. Þá er hvers kyns niðurrifsstarfsemi, leynimakk með erlendum öflum og krafa um aðskilnað Hong Kong og Kína refsiverð.

Lögreglan hefur þegar handtekið rúmlega 300 íbúa Hong Kong, þar af hið minnsta níu fyrir brot sem urðu fyrst refsiverð með tilkomu nýju laganna. Ein þeirra, að sögn New York Times, er 15 ára stúlka.

Aðgerðirnar sem fulltrúadeildin samþykkti í gærkvöld þurfa samþykki öldungadeildar svo þær taki gildi. Forseti fulltrúadeildarinnar, Nancy Pelosi, sagði að nýju öryggislögin væru „hrottafengin og víðfem herferð gegn íbúum Hong Kong, hvers eina ætlunarverk er að eyða frelsinu sem þeim var lofað.“

Tekur hún þar í sama streng og margir vestrænir leiðtogar sem hafa fordæmt öryggislögin. Þeirra á meðal eru ráðamenn í Bretlandi, Evrópusambandinu, Japan og Kanada.

Fordæmingin er þó ekki algjör. Kúba, fyrir hönd 53 ríkja, fagnaði tilkomu laganna á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Ríki eigi að hafa rétt á því að haga sínum innanríkismálum eins og þeim sýnist, án íhlutunar alþjóðasamfélagsins. „Við trúum því að öll ríki megi standa vörð um þjóðaröryggi sitt með lagasetningu og mælum með öllum skrefum í þá átt,“ sagði í yfirlýsingu ríkjanna 53.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.